136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess eru nú þrjár umræður um mál að ræða þau og koma þá fram með ábendingar og leiðréttingar ef svo sýnist. Annars þyrftum við bara að hafa tvær umræður.

Athugasemdir okkar við málið eru fyrst og fremst uppbyggilegar, þær snúa fyrst og fremst að því að reyna að bæta gott mál og gera það enn betra. Það er ekki gert til að drepa öðrum málum á dreif, alls ekki. Við munum leggja okkur fram um að ljúka þessu máli hér í dag og viljum alls ekki standa í vegi fyrir því, við viljum bara gefa okkur þann tíma sem þarf til að fara í þetta.

Ég kom inn á það áðan í ræðu minni að ákveðin missögn væri í frumvarpinu.

Það segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„... endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað.“

Í næstu setningu segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess.“

Ekkert kemur fram um það hvort það er á byggingarstað eða þar sem húsið er eða hvort það er á verkstæði úti í bæ við að smíða gluggana í húsi sem verið er að skipta um glugga í. Ég er að benda á mögulega meinbugi á frumvarpinu og það er gert til þess að það megi laga það. Eins og ég sagði áðan hefur hæstv. forsætisráðherra stöðvað störf þingsins af minna tilefni en því að við kannski gæfum hlé til að fara betur yfir málið og klára mögulega meinbugi á því hér við 3. umr. þannig að gott mál megi koma enn betra úr afgreiðslu Alþingis.