136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikill er máttur okkar sjálfstæðismanna, það er alveg ljóst samkvæmt ræðu hv. þm. Grétars Mars Jónssonar.

Það er alveg rétt að Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, hann stendur vörð um þessar grunnatvinnugreinar og hefur gert það. Sjálfstæðisflokkurinn mun gera það áfram. Það þýðir ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki reiðubúinn til umræðu um einhverjar skynsamlegar leiðir í sjávarútvegsmálum, leiðir sem gætu þá enn treyst þann öfluga atvinnuveg sem við eigum.

Það verður að segjast eins og er að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur ekki staðið fyrir málefnalegri umræðu um þessi mál. Allt of mikil einfeldni og upphrópanir hafa einkennt málflutning hans. Það er engin spurning um það að íslenska sjávarútvegskerfið hefur þó stuðlað að því að við höfum nýtt þessa auðlind með einhverjum besta hætti sem við getum gert ef horft er til þeirra þjóða sem við berum okkur saman við. Við erum eitt af fáum löndum ef ekki eina landið í heiminum sem hefur sjávarútveg sem skilar jafnmiklu í þjóðarbúið og sjávarútvegur okkar gerir. Það gengur einfaldlega ekki upp að fara með einhverjum byltingarkenndum aðferðum í endurskipulagningu á þeim geira. Við erum að tala um atvinnugrein sem skilar um 50% af útflutningsverðmætum okkar, skapar gríðarleg verðmæti og greiðir mikla skatta. Öðruvísi er það annars staðar þar sem miklir styrkir fylgja gjarnan þessari grein.

En við sjálfstæðismenn erum, ég ítreka það, tilbúnir hvenær sem er og reiðubúnir til (Forseti hringir.) að taka þátt í umræðu um skynsamlegar leiðir í sjávarútvegsmálum.