136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er aftur um einföldun að ræða í málflutningi hv. þm. Grétars Mar Jónssonar sem heldur því fram að sjávarútvegsstefna Íslands og íslenska sjávarútvegskerfið sé orsök efnahagshrunsins í heiminum. Það er ekki hægt að taka mark á svona málflutningi.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson er meðvitaður um það og hann þekkir þessi mál vel og honum er fullkunnugt að stærstur hluti af aflaheimildum sem eru í dag í okkar sjávarútvegskerfi hafa gengið kaupum og sölum. Það má vel vera ... (Gripið fram í: Það er lygi.) Það má vel vera að á einhverjum tímapunkti (GMJ: Það er lygi.) í þessari sögu hafi verið stigin skref sem hefði þurft að stíga með öðrum hætti. En það er ekki svo auðvelt að spila til baka í þeim efnum. Það er auðvelt að vera hér með raup og hástemmdar yfirlýsingar. En við verðum að ræða þetta af ábyrgð og festu. Við verðum að ræða þetta þannig að þessi atvinnugrein geti búið við traust og til þess erum við sjálfstæðismenn tilbúnir. Við erum tilbúnir til þess að ræða það hvort til séu einhverjar leiðir sem megi sætta þau sjónarmið sem uppi eru. En það byggist ekki á því að kollsteypa þessu kerfi.

Hann vitnar hér í frændur okkar, Færeyinga, (GMJ: Þeir gerðu það.) og reynslu þeirra af sóknarkerfinu. Hver er staða í þorskveiðum Færeyinga í dag, virðulegi þingmaður? (GMJ: Góð. Hún er góð.) Hún er góð, já. (Gripið fram í: Já.) Þeir veiða nokkur þúsund tonn af þorski í dag, (GMJ: Þeir eru að veiða meira ...) innan við tíu þúsund tonn. Er hún góð? Það er bara eins og þingmaðurinn hafi ekki rætt við menn þar og kynnt sér þessi mál nægilega vel. (GMJ: Þetta er ...) Hún er bara ekki góð (Forseti hringir.) vegna þess að þeirra stefna hefur (Forseti hringir.) ekki alveg gengið upp.