136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:03]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim sem hafa talað við þessa umræðu og sagt að hér sé í sjálfu sér um gott mál að ræða varðandi það að létta af eða auka endurgreiðslu, endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis allt að 100% af virðisaukaskatti og vegna endurbóta við viðhald og annað og auk þess eru þær breytingartillögur sem koma frá efnahags- og skattanefnd til þess að gera frumvarpið betra.

Þetta er eitt af þeim málum sem verður að segjast að sé gott mál sem frá ríkisstjórninni kemur enda er það stutt af öllum flokkum. Hins vegar vill svo til eins og með svo margt annað sem þaðan kemur að of skammt er gengið miðað við þann tíma sem ríkisstjórnin hefur haft og þann aðdraganda sem varð að stjórnarmynduninni, þ.e. að hér er dæmi um að of skammt sé gengið og of smátt hugsað.

Talað er um að örva byggingariðnaðinn og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að gera það. En þetta er eingöngu einn liður í því sambandi. Það er svo margt annað sem kemur til skoðunar varðandi það hvernig eigi að koma þeirri starfsemi í eðlilegt horf eða alla vega í eitthvert horf og þá þarf miklu meira til að koma en það sem hér er um að ræða.

Ég vil benda á í fyrsta lagi það sem kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar áðan þegar hann talaði um heildstæða stefnu og heildstæðar leiðir og vísaði þá til bankanna og hvernig bankastarfsemin væri í dag. Það fer ekkert af stað, það verður ekkert atvinnulíf í landinu nema það sé eðlileg lánastarfsemi. Sú starfsemi er ekki fyrir hendi í dag og hún verður ekki á meðan stýrivextirnir eru eins og þeir eru og vextirnir sem um er að ræða og atvinnulífinu bjóðast. Það er eitt atriðið.

Það sem skiptir máli er ekki bara að örva byggingariðnaðinn. Hann þarf virkilega á örvun að halda en það er miklu meira sem kemur til. Það þarf að örva allan þjónustuiðnaðinn. Þá koma til skoðunar hlutir eins og til dæmis stimpilgjald svo að kaup og sala á húsnæði geti verið með eðlilegum hætti. Ég flutti frumvarp í haust þar sem fjallað var um að fella stimpilgjald alfarið niður við kaup á húsnæði og ég tel að það skipti máli við að örva þau viðskipti.

Fleira kemur upp í hugann sem hefði þurft að skoða og mætti skoða þess vegna af hv. efnahags- og skattanefnd varðandi það að gera nauðsynlegar breytingar á virðisaukaskattslögunum. Þannig er að þjónusta fasteignasala er virðisaukaskattsskyld og þar er um að ræða verulegar fjárhæðir greiddar við eigendaskipti þegar fasteign er keypt eða seld. Spurningin er þessi: Er það eðlileg gjaldtaka? Væri eðlilegt að fella þá virðisaukaskattsskyldu starfsemi niður? Það er eitt atriðið.

Ég talaði um það hér í umræðum þegar við vorum að fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti, nauðungaruppboð og ýmislegt fleira að það sem skipti skuldara í þessu landi meira máli en það sem ríkisstjórnin var að leggja til, það væri að fella niður réttargjöldin. Í þessu sambandi, af þessu tilefni er full ástæða til þess að benda á að þjónusta lögmanna er virðisaukaskattsskyld og þar er iðulega um að ræða gjaldheimtu ríkisins sem væri eðlilegt að yrði felld niður. Ég bendi til dæmis á greiðslu virðisaukaskatts vegna innheimtukostnaðar. Við það búa skuldugustu og verst settu borgararnir og þeir þurfa að greiða 24,5% virðisaukaskatt ofan á þá gjaldtöku sem er vegna innheimtu á kröfunum. Ef ríkisstjórnin vildi virkilega koma til móts við þá skuldsettustu í þjóðfélaginu felldi hún niður virðisaukaskatt af þessari starfsemi svo að dæmi sé tekið.

Annað dæmi sem má taka í því sambandi er varðandi skipti á þrotabúum. Þar er líka um að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi sem væri eðlilegra að yrði tekin út og felld niður. Það skal tekið undir það með þetta frumvarp að það er vissulega góðra gjalda vert og af hinu góða og við sjálfstæðismenn styðjum það og höfum viljað greiða fyrir því á alla lund og gerum en það er bara byrjunin því að meira verður að koma til ef það er virkilegur vilji og ætlan ríkisstjórnarinnar að koma atvinnulífinu hér í virkilegan gang á nýjan leik.

Ég nefni hér sem sagt þau atriði sem hefðu þurft að koma til varðandi breytingar á virðisaukaskattslöggjöfinni. Það má nefna til viðbótar margvíslegan þjónustuiðnað svo sem viðgerðarþjónustu og margt fleira sem full ástæða er til þess að skoða hvort ekki sé ástæða til þess að gera breytingar á eða heimila jafnvel endurgreiðslu þegar um slíkt er að ræða til þess að örva þann iðnað líka.

Staðreyndin er einfaldlega sú í dag að atvinnulífið er meira og minna að hægja á sér. Fleiri og fleiri eru að verða atvinnulausir. Hvernig getum við örvað atvinnustarfsemi, komið hjólum atvinnulífsins sem fyrst til þess að fara að snúast af þeim hraða að fleiri fái atvinnu eða til að koma í veg fyrir að fleiri missi atvinnuna? Jú, við gerum það fyrst og fremst með því að efla einkaframtakið, efla smáatvinnureksturinn og smáfyrirtækin. Það er einfaldasta leiðin. Það er leiðin sem kostar minnst að fara. Það er sú leið sem ríkisstjórnin hefði átt að einbeita sér að. En það er þar eins og í svo mörgu öðru að á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá því að ríkisstjórnin tók við völdum hefur nánast ekkert gerst. Nánast engir hlutir hafa verið afgreiddir nema það að afgreiða mál um Seðlabanka Íslands sem ríkisstjórnin setti í algjöran forgang og virtist vera upphaf og endir þeirra hluta sem ríkisstjórnin teldi að þyrftu að vera í forgangsröðun. Það er svo merkilegt með það að eftir það virðist vindurinn meira og minna vera horfinn eða farinn úr stjórnarliðinu. Hér er verið að leggja fram frumvarp sem er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En eins og ég hef bent á í máli mínu þarf miklu meira til að koma.

Í ágætri ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar áðan gerði hann grein fyrir hugmyndum Framsóknarflokksins í efnahagsmálum. Hann ræddi um að Framsóknarflokkurinn hefði komið með heildstæðar tillögur varðandi þau sjónarmið og efni sem hér væri um að ræða. En það er nú einu sinni þannig að Framsóknarflokkurinn er aukahjólið undir vagni ríkisstjórnarinnar, það hjól sem ekki má fara undan vegna þess að þá er ríkisstjórninni þrotinn krafturinn og týnist á tröllatungu ef svo ber undir.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi ýmislegt úr þessari tillögusmíð framsóknarmanna og gat um að þar væri um að ræða hluti sem þyrftu til að koma til þess að atvinnulífið gæti gengið í landinu. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson setti fram í því efni. Vissulega er það alveg rétt hjá honum að margt af því sem þar er verið að leggja til eru nauðsynlegar aðgerðir til þess að hjól atvinnulífsins geti snúist. Þetta eru tillögur og sjónarmið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig sett fram í atvinnumálum og skiptir miklu máli að komi fram. Munurinn er sá að margar af þeim tillögum og hugmyndum hafa ratað hér inn í þingsali sem mál sem barist er fyrir. Hins vegar hefur á það skort bæði hjá þessu aukahjóli ríkisstjórnarinnar og hvað þá heldur ríkisstjórninni að þeir settu öll hjólin undir og stýrðu í þá átt sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins talaði um að væri stefna Framsóknarflokksins vegna þess að þau mál hafa engin ratað inn í þingsali eða verið flutt frumvörp til þess að standa á bak við þau mál.

Það skiptir máli fyrir okkur í dag að reynt sé að greiða fyrir þjónustustarfseminni sem mest má vera, að hún sé örvuð. Forsenda þess er að bankarnir séu opnir og séu ekki bara innheimtustofnanir heldur einnig lánastofnanir. Það skiptir máli að vaxtastig sé eðlilegt þannig að það geti borgað sig að reka atvinnustarfsemi í landinu, að það geti verið um arðbæran atvinnurekstur að ræða í landinu. Enginn atvinnurekstur stenst það vaxtastig sem er í landinu í dag. Þessi orð hafa hljómað úr þessum ræðustól ítrekað í marga mánuði. Hæstvirtir ráðherrar hafa hver um annan þveran komið og haldið þessu fram þannig að hér er ekki um neina nýlundu eða ný sannindi að ræða sem ég er að koma fram með hér. Munurinn er hins vegar sá að ráðherrarnir, stjórnarflokkarnir halda um stjórnartaumana og hafa möguleika á því að gera bragarbót í þessu máli, gera ráðstafanir til þess að um geti verið að ræða eðlilega fjársýslu og eðlilega lánastarfsemi í landinu. En það hafa þeir ekki gert. Meðan það gerist ekki getum við í sjálfu sér afgreitt frumvörp eins og þetta sem eru góðra gjalda verð. En þau munu stranda. Atvinnulífið mun ekki örvast meðan ekki verður sköpuð umgjörð utan um það þannig að það geti verið arðvænt og arðskapandi.

Eins og ég minntist á áðan í ræðu minni skiptir mestu máli að hlúa að starfsemi smáfyrirtækjanna og einstaklingsfyrirtækjanna. Það er einfaldast og það er ódýrast, auk þess sem þar er um að ræða kraft sem getur komið þar til sögu. Skuldsett fyrirtæki hverfa út af markaðnum en þá geta minni fyrirtækin og einstaklingsfyrirtækin tekið upp þá þjónustu og skapað sér aukinn arð og veitt aukna atvinnu við það að færa út starfsemi sína. Með því mundu færri störf tapast. Með því mundu jafnvel ný störf skapast og að því hljótum við að stefna.

Af því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er eini stjórnarliðinn sem situr í salnum fyrir utan hæstv. forseta vil ég leyfa mér að eiga orðastað við þennan hv. þingmann Vinstri grænna þar sem sá flokkur hefur farið fram á þeim grundvelli að verið sé að sökkva landinu þegar byggð eru upp arðsöm fyrirtæki og að hin versta mengun sé að tröllríða öllu. Því vil ég leyfa mér að segja þetta: Það er ekki til að mínu viti ógeðfelldari hlutur eða meiri mengun en fjöldaatvinnuleysi. Núverandi ríkisstjórn ber ábyrgð á fjöldaatvinnuleysi vegna þess að hún hefur ekki komið fram neinum þeim raunhæfu aðgerðum sem geti horft til arðsköpunar og aukinnar atvinnu og hagsældar í landinu. Þetta frumvarp er gott. Það hef ég ítrekað tekið fram. En það er bara byrjunin á því sem þarf að gera eða réttara sagt getur komið til sem stuðningsatriði þegar við erum búin að koma eðlilegri lánastarfsemi í gang. Þegar við erum búin að koma vöxtum í eðlilegt horf. Það verður síðan að gera þá bragarbót varðandi lánastarfsemina að verðtryggingin verði felld niður. Það getur enginn staðið undir því að borga verðtryggð lán í því þjóðfélagsástandi sem við búum við í dag.

Því ætti að vera forgangsatriði hjá ríkisstjórninni að færa verðtrygginguna aftur til baka til þess sem eðlilegt getur talist, þess vegna til þess tíma sem var fyrir efnahagshrunið þannig að menn skoði hvort ekki sé eðlilegra að fara þá leið en þá sem Framsóknarflokkurinn leggur til þó að þar sé ýmislegt ágætt.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að hér er um mál að ræða sem er ástæða til þess að afgreiða sem allra fyrst. En hér er aðeins verið að stíga örlítið skref í rétta átt.