136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í morgun gagnrýndi ég ríkisstjórnina harðlega fyrir forgangsröðun hennar varðandi þau mál sem hafa verið tekin til umræðu á Alþingi í þessari viku. Tíma þingsins hefur fyrst og fremst verið eytt í að ræða um ný kosningalög og svo hefur ríkisstjórnin haft uppi áform um að ræða breytingar á stjórnarskránni.

Eins og ég benti á í þeirri ræðu hafa breytingar á kosningalögunum og stjórnarskránni ekkert með það að gera að slá skjaldborg um heimilin í landinu, að berjast gegn atvinnuleysi og fyrir uppbyggingu atvinnulífsins eða að endurreisa bankana. Það eru þau meginverkefni sem núverandi ríkisstjórn vildi leggja áherslu á. Ég tel að það séu þau mál sem við ættum að ræða hér frekar en breytingu á kosningalögum eða stjórnarskránni.

Það frumvarp sem hér er til umræðu fjallar um virðisaukaskatt og ég fagna því sérstaklega. Ég fagna því að verið sé að ræða mál sem felur í sér breytingar á lögum sem eru til þess fallnar að hvetja til aukinnar atvinnustarfsemi. Í nefndaráliti hv. efnahags- og skattanefndar segir að markmiðið með því að hækka hlutfall endurgreiðslu virðisaukaskatts sé að hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði og draga úr atvinnuleysi. Ég er sammála því markmiði og ég er sammála því að þetta frumvarp er til þess fallið að ná þeim markmiðum. Þess vegna fagna ég því að ríkisstjórnin hafi lagt þetta mál fram og sýni nú hug sinn í verki með því að snúa sér að þeim málum sem skipta mestu fyrir fyrirtækin, atvinnulífið og fólkið í landinu.

Það hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafi sett fram tillögur um tímabundna hækkun á hlutfalli endurgreiðslu í samræmi við þetta frumvarp. Það er gott til þess að vita að þingið ætli sér að verða við kröfum og tilmælum samtaka atvinnurekenda sem hafa það að markmiði að auka atvinnusköpun og berjast gegn atvinnuleysinu vegna þess að atvinnuleysið er það versta sem getur komið fyrir þjóðfélag okkar.

Í dag ganga u.þ.b. 15 þúsund manns atvinnulausir (GMJ: 16 þúsund.) eða 16 þúsund manns, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, einstaklingar sem hafa misst vinnuna. Þetta er auðvitað ógnvænleg þróun. Við höfum séð háar atvinnuleysistölur í löndunum í kringum okkur en samsetning atvinnulausra á Íslandi er allt önnur en í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við. Hér á Íslandi er að missa vinnuna vel menntað fólk í hálaunastörfum sem er óþekkt eða a.m.k. mun minna vandamál í löndunum í kringum okkur. Atvinnuleysið á Íslandi er því allt öðruvísi samsett en annars staðar. Það er veruleg hætta á því að ef ekkert verður að gert muni það leiða til þess að þetta ágæta fólk muni leita eftir atvinnu og lífsviðurværi fyrir fjölskyldur sínar á erlendri grundu sem væri auðvitað afar óheppilegt fyrir samfélagið.

Ég fagna því sérstaklega að hér sé lögð fram breytingartillaga sem gerir það að verkum að frumvarpið og sú regla sem þar er lagt til að verði lögfest nái til starfa arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga vegna þess að við höfum orðið vör við að í þessum greinum hefur atvinnuleysi orðið þó nokkuð mikið, ekki síst hjá arkitektum. Mér skilst að arkitektastofur margar hverjar séu að tæmast vegna verkefnaskorts. Umrædd breytingartillaga mun því vonandi leiða til að atvinnutækifærum þessara stétta og annarra muni fjölga, okkur veitir ekkert af því að halda þessu fólki í vinnu, halda uppi áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í landinu og þess vegna fagna ég þeirri breytingu.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri, frú forseti, ég vildi bara í ljósi þess sem ég sagði í morgun þegar ég kvartaði yfir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri. Mér finnst þetta gott mál. Þó að þetta sé auðvitað lítið skref í rétta átt sýnir þetta þó viðleitni og vilja til að ýta undir atvinnusköpun í landinu, en betur má ef duga skal. Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir að við erum reiðubúin til þess að greiða fyrir öllum slíkum málum hér í þinginu. Það höfum við margsagt og við þær yfirlýsingar munum við standa.