136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:38]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þetta svar hvað varðar endurgreiðslureglur vegna einingahúsaframleiðslufyrirtækja. Það er mjög mikilvægt að gæta vel að því að ekki verði hert að þeirri starfsemi vegna þess að ég tel að við þurfum að leita allra leiða til að lækka byggingarkostnað. Við þurfum að leita allra leiða til að fjöldaframleiðslufyrirtækin í byggingariðnaði geti eflt starfsemi sína í þeim tilgangi að lækka byggingarkostnað. Þess vegna held ég að það eigi að nota tækifærið núna til að fara rækilega yfir það í framhaldi af afgreiðslu þeirra laga sem hér eru til umfjöllunar.

Hvað varðar þessa skattalækkun annars vegar og hins vegar áform ríkisstjórnarinnar að því er virðist um skattahækkanir, þá vísa ég til þess sem lesa má í blöðum í dag en það orðalag að skattar verði ekki hækkaðir að svo komnu máli bendir auðvitað til þess að það sé allt til frekari skoðunar. Ég vara við því, við þurfum að hagræða í ríkisrekstrinum og leita allra leiða til að spara. Við eigum að fjárfesta í sparnaði, við eigum ekki að fjárfesta í skattahækkunum.