136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru fulltrúar fjögurra þingflokka á Alþingi, allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins. Ásamt mér flytja málið Steingrímur J. Sigfússon, Birkir J. Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson.

Frumvarpið stefnir að þeim markmiðum sem fram komu í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar frá 8. febrúar sl. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru af tvennum toga. Annars vegar er lagt til að þrjár nýjar greinar komi í stjórnarskrána, ákvæði um auðlindir og umhverfismál, ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðsla geti farið fram að frumkvæði tiltekins fjölda hóps kjósenda og loks ákvæði um að allar breytingar á stjórnarskrá skuli bornar undir þjóðina til samþykkis. Þessum ákvæðum er ætlað að taka gildi við samþykkt síðara frumvarps til stjórnarskipunarlaga að afloknum kosningum. Hins vegar er gerð tillaga um grundvallarbreytingu varðandi framtíð íslenskrar stjórnskipunar með því að sérstöku stjórnlagaþingi sem kosið verði beint til verði falið að semja nýja stjórnarskrá lýðveldisins.

Ég legg áherslu á að efni frumvarpsins ber skýr merki þeirrar sterku kröfu sem hefur komið fram í samfélaginu um að þjóðin eigi að hafa bein áhrif á mikilvæg málefni sem varða hagsmuni hennar. Með þessu er jafnframt undirstrikað að þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn. Um langt skeið hefur verið stefnt að því að heildarendurskoðun fari fram á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem Alþingi samþykkti árið 1944 að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Allar tilraunir til þess hafa mistekist þótt ýmsir hlutar stjórnarskrárinnar hafi verið endurskoðaðir ítarlega.

Meðal fyrstu verkefna minna sem forsætisráðherra var að undirbúa stofnun ráðgjafarhóps ríkisstjórnarinnar um tillögur um breytingar á stjórnarskránni og var hann skipaður 9. febrúar sl. undir forystu Bjargar Thorarensen prófessors. Hópnum var falið að vinna tillögur um stjórnarskrárbreytingar varðandi auðlindaákvæði í stjórnarskrána, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðferðir við breytingar á stjórnarskránni. Jafnframt skyldi hann meta í ljósi starfs stjórnarskrárnefndar á árunum 2005–2007, og þess víðtæka samráðs sem þá átti sér stað, hvort rétt væri að gera tillögur um fleiri breytingar á stjórnarskrá, einkum varðandi umhverfisvernd.

Ég undirstrika að í starfi stjórnarskrárnefndarinnar sem stóð í tvö ár voru þessi atriði, einkum um auðlindaákvæði og breytingar á stjórnarskránni, ítarlega rædd og samstaða var um ýmsa meginþætti þótt ekki kæmu fram beinar tillögur um breytingar nema að því er varðar aðferðir á breytingum á stjórnarskránni.

Ráðgjafarhópurinn byggði vinnu sína um þessi atriði á fyrrgreindu starfi stjórnarskrárnefndar. Auk þess var hópnum falið að gera tillögur um fyrirkomulag stjórnlagaþings sem haldið yrði eftir komandi alþingiskosningar, þar með talið varðandi nauðsynlega lagasetningu og eftir atvikum setningu bráðabirgðaákvæðis í stjórnarskrá. Skilaði hópurinn frumtillögum sínum um efnið þann 19. febrúar. Þær voru kynntar formönnum allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og í öllum þingflokkum áður en frumvarpið sem ég mæli fyrir hér í dag var lagt fram í lokagerð.

Ljóst er að þótt markmiðið sé að stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá er ráðgert að því verði veittur nokkuð rúmur tími til að ljúka verkinu sem er bæði margbrotið og vandasamt. Hér er miðað við frest allt til 17. júní 2011 en þann dag fögnum við 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar. Er því ekki óeðlilegt að samhliða tillögu um setningu stjórnlagaþings séu gerðar tillögur um nokkrar breytingar á stjórnarskránni í mjög afmörkuðum atriðum sem geta þó haft mikið gildi á komandi missirum á meðan stjórnlagaþing er að störfum.

Fyrst vík ég að 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um náttúruauðlindir, eignarhald þeirra og nýtingu, svo og um ýmis réttindi almennings á sviði umhverfisréttar. Hér er fjallað um efni sem snýr að gífurlega mikilvægum hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og til framtíðar. Því er afar mikilvægt bæði að setja skýr markmið um nýtingu þessara auðlinda til hagsældar fyrir þjóðina alla og afnema óvissu um eignarhald þeirra. Sú leið er farin í frumvarpi þessu að byggja á þeirri vinnu og þeim umræðum sem fram fóru í stjórnarskrárnefnd um efnið þannig að ákvæðið taki í senn til eignarhalds og nýtingar á náttúruauðlindum og ýmissa meginreglna sem leiðir bæði af alþjóðlegri samvinnu og löggjöf á sviði umhverfisréttar.

Kjarni tillögunnar byggir á tillögu auðlindanefndar frá árinu 2000, en í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Á vegum auðlindanefndar fór fram mjög ítarleg rannsókn, bæði á lagaumhverfi og öðrum þáttum sem varða eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Meginatriðið í niðurstöðum auðlindanefndar var að lýst yrði yfir í stjórnarskrá nýju formi á eignarrétti til hliðar við hefðbundinn einkaeignarrétt einstaklinga og lögaðila. Það heiti sem hentaði best þessu nýja formi eignarréttar væri orðið þjóðareign. Í þessu felst að ríkinu er samkvæmt lögum fenginn hinn sérstaki eignarréttur á náttúruauðlindum í skjóli þess að enginn annar lögaðili eða einstaklingur hefur getað sannað eignarrétt sinn að þeim.

Fyrirmynd að eignarhaldi af þessum toga er einkum sótt í ákvæði laga um þjóðlendur, nr. 58/1998, en samkvæmt þeim er íslenska ríkið lýst eigandi lands sem ekki er háð einkaeignarrétti og þar með þeirra náttúruauðlinda sem þar finnast. Með því að lýsa yfir eign þjóðarinnar á slíkum auðlindum yrði jafnframt slegið föstu að þeim mætti ekki afsala varanlega til einstaklinga eða lögaðila og jafnframt yrði girt fyrir að einstaklingar og aðrir aðilar gætu eignast beinan eignarrétt að þeim, t.d. fyrir hefð.

Mikilvægt er að hafa í huga að þessu nýja stjórnarskrárákvæði er ekki ætlað að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti af náttúruauðlindum eða atvinnuréttindum á grundvelli opinberra leyfa sem kunna að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við slíkum réttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda. Hins vegar eru tekin af tvímæli um að slík óbein réttindi muni ekki leiða til beins eignarréttar einstaklinga eða lögaðila.

Í 1. gr. frumvarpsins er haft í huga að nýting auðlinda í þágu þjóðarinnar og komandi kynslóða er órjúfanlega tengd stærri grundvallarspurningum á sviði umhverfismála.

Því er lagt til í 2. mgr. að stjórnvöldum beri skylda til að tryggja að nýting auðlindanna byggi á meginreglum umhverfisréttar um sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun er eitt af mikilvægustu hugtökum auðlindastjórnunar. Grundvöllur hennar er að stjórnun nýtingar og þróunar endurnýjanlegra náttúruauðlinda sé með þeim hætti að hún skerði ekki afnotamöguleika komandi kynslóða af auðlindinni eða skaði hana óbætanlega.

Íslenska ríkið hefur gengist undir ýmsar alþjóðaskuldbindingar á sviði umhverfisréttar sem fjalla um nýtingu náttúruauðlinda og annarra umhverfisgæða. Meðal mikilvægustu áfanga í alþjóðasamvinnu um umhverfisrétt er ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó í Brasilíu árið 1992. Sú ráðstefna markaði tímamót í alþjóðlegu samstarfi um umhverfismál og afrakstur hennar var bæði alþjóðasamningar og yfirlýsingar sem lögðu grunninn að frekara starfi. Þar var til dæmis samþykkt framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í heiminum. Þar var rík áhersla lögð á mikilvægi þess að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika sem þætti í sjálfbærri þróun. Með því að vísa til þessara lykilhugtaka staðfestir íslenska ríkið að það hyggist halda þessar meginreglur í heiðri.

Ég vek sérstaklega athygli á markmiði 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem er þessu tengt. Þar er lagt til ákvæði um að allir eigi rétt til umhverfis sem stuðli að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er mælt fyrir í lögum. Hér eru áréttaðar skyldur ríkisins til að vinna stöðugt að þessum markmiðum. Eins stefnir þetta stjórnarskrárákvæði að því að skjóta styrkum stoðum undir tiltekin réttindi almennings, annars vegar varðandi upplýsingarétt um umhverfismál og hins vegar varðandi svokölluð þátttökuréttindi þegar undirbúnar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið. Með þessu eru fest í sessi lykilatriði af vettvangi umhverfisréttarins en um þau hefur verið sett almenn löggjöf, m.a. vegna margvíslegra skuldbindinga sem leiða af EES-samningnum í umhverfismálum.

Að lokum vil ég leggja áherslu á hvað varðar auðlindaákvæðið að með því að festa ákvæði í stjórnarskrá um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda og nokkrar alþjóðlegar meginreglur á sviði umhverfismála skipar Ísland sér á bekk með þeim þjóðum sem telja slík málefni eina af mikilvægustu undirstöðunum fyrir heill þjóðarinnar. Reyndar má nær undantekningarlaust finna ákvæði af þessum toga í nýjum stjórnarskrám lýðræðisríkja.

Í 2. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um aðferðir til að breyta stjórnarskránni. Samkvæmt gildandi reglum verður stjórnarskránni breytt með þeim hætti að eftir að frumvarp til stjórnarskrárbreytingar hefur verið samþykkt skal rjúfa þing og láta fara fram almennar þingkosningar. Að þeim loknum skal hið nýja þing staðfesta frumvarpið óbreytt. Meginbreytingin samkvæmt þessu frumvarpi felst í því að framvegis er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnarskránni séu bornar beint undir atkvæði þjóðarinnar. Þetta er eðlileg tilhögun og í samræmi við nútímahugmyndir um lýðræði, að það sé þjóðin sem setji valdhöfunum í stjórnarskrá þær meginreglur sem þeim ber að virða með milliliðalausri aðkomu að breytingum á henni. Auk þess verður kjósendum með þessu gefinn kostur á því að taka afstöðu til tillagna um stjórnarskrárbreytingar óháð þeim málefnum sem tekist væri á um hverju sinni í alþingiskosningum.

Loks tel ég mikilvægt að benda á að hið nýja ákvæði mun girða fyrir að gerðar verði meiri háttar breytingar á íslenskri stjórnskipun nema þjóðinni verði gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem dæmi má nefna aðild Íslands að Evrópusambandinu, en hún mundi óhjákvæmilega kalla á breytingar á stjórnarskránni vegna þess framsals ríkisvalds sem henni fylgdi.

Þegar frumvarp til stjórnarskipunarlaga er borið undir þjóðaratkvæði er lagt til að tiltekinn hundraðshluti kosningarbærra manna verði að lágmarki að greiða atkvæði með slíku frumvarpi til að það teljist samþykkt. Þetta er gert til að tryggja að breytingar á stjórnarskránni njóti lágmarksstuðnings meðal kjósenda. Á hinn bóginn er hlutfallinu stillt í hóf, ekki síst í ljósi þess að nái frumvarp þetta fram að ganga yrði mögulegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni án þess að hún færi fram í tengslum við almennar kosningar.

Í næsta ákvæði frumvarpsins, 3. gr., eru enn frekari tillögur sem miða að því að auka beint lýðræði og þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku. Lagt er til að ákveðið hlutfall kjósenda, 15% þeirra (ríflega 30.000 kjósendur), geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tiltekin lög eða málefni. Æ algengara er í nýrri stjórnarskrám að sett séu ákvæði um kosti almennings til að hafa bein áhrif á stjórnun landsins. Með þessu ákvæði um þjóðarfrumkvæði er kjósendum gefinn kostur á að koma tilteknum málum á dagskrá stjórnmálanna og taka með beinum hætti þátt í stefnumótun og löggjöf. Eðlilega er ekki hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu án nokkurra takmarkana, en hér er gerð sú tillaga að málefni sem krefjast má þjóðaratkvæðis um þurfi að varða almannahag. Einnig getur krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu varðað gildi einstakra laga, t.d. að umdeild lög sem Alþingi hefur samþykkt verði felld úr gildi.

Þó verður ekki hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum. Er slík undantekning gerð til að standa vörð um fjárstjórnarvald þjóðþingsins, auk þess sem ekki þykir eðlilegt að unnt sé með slíkri atkvæðagreiðslu að hindra lagasetningu sem hefur það markmið að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins.

Í 2. mgr. er ráðgert að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu verði bindandi þegar hún fjallar um að fella úr gildi tiltekin lög og meiri hluti gildra atkvæða er fylgjandi tillögu sem borin er upp, þó minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá. Hér er lagt til að sambærilegan lágmarksfjölda kjósenda þurfi eins og þegar breytingar á stjórnarskrá eru lagðar í þjóðaratkvæði.

Þegar önnur málefni eru borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu telst tillagan samþykkt ef meiri hluti greiddra atkvæða er fylgjandi henni. Ljóst er að sé fylgi þjóðarinnar við málefnið afgerandi felst í því mikilvæg pólitísk krafa á þingið um að fylgja eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um tiltekið málefni og þar með vilja þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Að lokum mun ég víkja að mikilvægu nýmæli frumvarpsins, tillögu um að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við stjórnarskrána um að efnt verði til stjórnlagaþings.

Hugmyndir um stjórnlagaþing eru ekki nýjar af nálinni og meðal annars lagði ég fram frumvarp um málið árið 1995. Þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram frumvarp um stjórnlagaþing á þessu þingi sem hér var til umræðu í síðasta mánuði. Þegar núgildandi stjórnarskrá var sett við lýðveldisstofnunina árið 1944 var ákveðið að bíða með heildarendurskoðun hennar til betri tíma en aðeins því nauðsynlegasta var breytt til að lýðveldisstofnunin gæti átt sér stað. Eftir sem áður hefur stjórnarskráin hvílt á gömlum merg, fyrstu stjórnarskrá Íslands sem Danakonungur færði Íslendingum árið 1874 án þess að samþykki þjóðkjörins þings lægi fyrir.

Aldrei fyrr hefur jafnsterk krafa komið fram um nauðsyn þess að Íslendingar setji sér nýja stjórnarskrá frá grunni. Þar hefur einkum verið rætt um þörf á að breyta skipulagi löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og aðskilnaði milli þessara tveggja valdþátta, reglum um ábyrgð handhafa framkvæmdarvaldsins og eftirliti þingsins með starfi stjórnvalda og ekki síst um möguleika þjóðarinnar á að taka beinan þátt í ákvörðunum með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í þeirri umræðu hefur sjónum verið beint að uppruna íslensku stjórnarskrárinnar og þeirri staðreynd að stór hluti ákvæða hennar stendur óbreyttur frá árinu 1874. Þessi ákvæði endurspegla því hvorki þann veruleika sem er uppi varðandi meðferð framkvæmdarvaldsins né tryggja nægilega aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og nauðsynlegt aðhald þings með framkvæmdarvaldi.

Í ljósi þess að stjórnmálaflokkum hefur ekki tekist að ná samstöðu um nauðsynlegar breytingar á nokkrum meginþáttum í núgildandi stjórnarskrá, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, viljum við nú freista þess að stofna til sérstaks stjórnlagaþings með þjóðkjörnum fulltrúum sem verði falið þetta mikilvæga verkefni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að forseti Íslands boði til stjórnlagaþings en þaðan í frá taki þingið sjálft við stjórn sinna mála og setji sér starfsreglur. Einu mörkin sem þinginu eru sett er að því ber að byggja tillögur sínar á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda en vitaskuld verður aldrei fallist á nein frávik frá þeim grunngildum.

Í þeim frumvarpsdrögum sem fylgja frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að stjórnlagaþingið verði skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Um kjörgengi og kosningu fulltrúa á þingið og skipulag þess skal mælt fyrir í sérstökum lögum sem sett verði að loknum almennum þingkosningum vorið 2009.

Drög að frumvarpi til slíkra laga fylgja frumvarpi því sem ég mæli nú fyrir. Þar koma fram mikilvæg atriði um skipan þingsins, þá sérstaklega að allir fulltrúar þingsins skuli kosnir persónukosningu, að sitjandi þingmenn, varaþingmenn og ráðherrar geti ekki boðið sig fram til þingsins og að stefnt sé að því að sem jöfnust hlutföll kynjanna sitji á þinginu. Auk þess er tekið fram í þessum frumvarpsdrögum að stjórnlagaþing geti ákveðið að afmarka verksvið sitt. Þó skuli sérstaklega teknir til athugunar þættir eins og undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar, skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra, hlutverk og staða forseta lýðveldisins, framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan, svo nokkuð sé nefnt.

Af þessu sést að verkefni stjórnlagaþingsins verður afar margháttað. Það er að mínu mati gífurlega mikilvægt að útfærsla á starfsskipulagi þingsins verði vel undirbúin. Það ræður í raun úrslitum um skilvirkni í störfum þingsins og endanlegan árangur þess.

Stjórnlagaþing mun geta ráðið sérfræðinga og annað starfsfólk og gert er ráð fyrir að starfi þingsins verði meðal annars skipt niður á smærri vinnunefndir um helstu meginþætti.

Ég fer nú nokkrum orðum um þann tímaramma sem er lagður til í 2. mgr. frumvarpsákvæðisins.

Það þykir eðlilegt að setja ytri tímaramma þannig að nokkurt svigrúm sé fyrir þá sem undirbúa munu kosningar til stjórnlagaþings og skipuleggja aðstöðu fyrir það og þjóðkjörna fulltrúa þess án þess þó að unnt sé að draga samkomudag stjórnlagaþings um of. Gera verður ráð fyrir einhverjum tíma fram að myndun nýrrar ríkisstjórnar í kjölfar alþingiskosninga 25. apríl nk. og a.m.k. nokkrum vikum til að afgreiða frumvarp til laga um stjórnlagaþing, hefja undirbúning að kosningu þess í sumarbyrjun og kjósa til þess síðsumars eða í haust.

Við verðum að huga að því að nægilegur tími gefist fyrir frambjóðendur til að koma fram og kynna sig og fyrir kjósendur að kynna sér málin og taka afstöðu. Í drögunum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing er gert ráð fyrir kosningum eigi síðar en 1. október í ár, en vitaskuld má halda þær fyrr ef henta þykir þótt óheppilegt sé að þær fari fram yfir hásumarleyfistímann.

Þá þykir við hæfi að leggja til fullveldisdaginn, 1. desember, sem síðasta mögulega setningardag stjórnlagaþings. Eftir það hefur stjórnlagaþing rúma 18 mánuði til að ljúka verkefni sínum. Sjálft getur það stytt starfstíma sinn ef þörf er á. Þá getur starfstíminn orðið lengri komi þingið fyrr saman. Reynir þar á samspil forseta Íslands sem boðar til þingsins og forsætisráðherra sem leggur því til starfsaðstöðu.

Þá getur Alþingi samþykkt með þingsályktun að lengja starfstímann um allt að hálft ár óski stjórnlagaþingið þess í því skyni að ljúka ætlunarverkinu.

Ég legg áherslu á að gert er ráð fyrir ákveðnu samráðsferli á milli stjórnlagaþingsins og Alþingis um gerð frumvarps til nýrrar stjórnarskrár, ekki síst til að tryggja enn frekar vandaða meðferð málsins án þess þó að Alþingi hafi neitunarvald gagnvart stjórnlagaþinginu.

Áður en stjórnlagaþing samþykkir frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það sent Alþingi til umsagnar. Alþingi skal veita stjórnlagaþingi umsögn sína innan tveggja mánaða. Þegar stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það á ný sent Alþingi sem getur innan mánaðar ákveðið með rökstuddri tillögu að vísa frumvarpinu aftur til stjórnlagaþings. Skal þá taka frumvarpið þar aftur til meðferðar með hliðsjón af rökstuddri tillögu Alþingis. Þarf þá tvo þriðju hluta fulltrúa á stjórnlagaþingi til að samþykkja frumvarpið nema fallist sé á rökstudda tillögu Alþingis um breytingar á frumvarpinu og þarf þá aðeins einfaldan meiri hluta. Náist slíkt samþykki skal frumvarpið lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu en ella telst það fellt. Af þessu er ljóst að komi upp ágreiningur um þetta milli stjórnlagaþings og Alþingis verður þjóðin endanlega að skera úr um hvort hún kýs að samþykkja nýja stjórnarskrá.

Frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal lagt undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó a.m.k. 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá, skal það staðfest af forseta Íslands og verður þá gild stjórnarskipunarlög. Hér þykir aftur eðlilegt að hafa tilskilið lágmark þjóðarinnar sem þarf að samþykkja stjórnarskrána til þess að réttlætanlegt sé að samþykktin teljist gild.

Að lokum vil ég nefna sérstaklega að hugmyndir um stjórnlagaþing eða þjóðfund til að setja borgurunum stjórnarskrá eru jafngamlar lýðræðishugsuninni. Því má finna mörg dæmi, bæði á 18. og 19. öldinni en ekki síður upp úr miðri 20. öld, þar sem lýðræðisríki hafa kosið að fara þessa leið til að ná ákveðinni þjóðfélagslegri sátt í kjölfar áfalla í samfélaginu. Ég bendi á að tillaga frumvarpsins um fyrirkomulag stjórnlagaþings er þó nýmæli sem á sér enga beina fyrirmynd í sögu stjórnlagaþinga eða þjóðfunda í lýðræðisríkjum frá síðustu öldum.

Sérstaða þess felst einkum í því að allir fulltrúar þingsins verða kjörnir beint af þjóðinni, auk þess sem niðurstaða þess verður lögð beint undir þjóðina með bindandi niðurstöðu. Þá koma hvorki handhafar ríkisvalds við sögu á stjórnlagaþinginu né heldur sitjandi þingmenn á Alþingi eða ráðherrar. Þetta er sú leið sem við, fulltrúar fjögurra þingflokka, teljum þá einu réttu til að ná því mikilvæga markmiði að endurskoðun stjórnarskrárinnar nái fram að ganga og að samfélagssátt náist með þessu móti.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni þessa frumvarps í nokkrum meginatriðum en vísa að öðru leyti til ítarlegrar greinargerðar sem því fylgir. Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og sérnefndar um stjórnarskrármál.