136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:48]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mun fara nánar yfir þetta mál í ræðu minni en ég vil beina tveimur spurningum til hæstv. forsætisráðherra.

Fyrri spurningin er þessi: Er það afdráttarlaust að 1. gr. frumvarpsins haggi ekki grundvellinum undir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þ.e. kvótakerfinu? Við þessari spurningu þarf að fást afdráttarlaust svar, já eða nei. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til hv. 1. flutningsmanns að hún geti svarað þeirri spurningu með jái eða neii.

Síðari spurningin lýtur að stjórnlagaþinginu svokallaða. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað gert er ráð fyrir að þetta svokallaða þing muni kosta. Ég geri ráð fyrir að þegar hugmyndin var að flytja frumvarpið sem stjórnarfrumvarp hafi verið unnið kostnaðarmat. Hins vegar fylgir ekkert kostnaðarmat með frumvarpinu eins og það er nú úr garði gert vegna þess að þetta er þingmannamál. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er til einhver áætlun um hvað þetta þing muni kosta og hver er hún?

Mér segir svo hugur um að þetta stjórnlagaþing muni kosta meira en milljarð króna og þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þeim fjármunum sé vel varið.