136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort þau ákvæði sem eru í frumvarpinu haggi í engu núverandi kvótakerfi. Ég kom mjög inn á það atriði í máli mínu og tel mikilvægt að árétta að stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign muni ekki skerða réttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í kvótakerfinu eða svipta þá kvótanum. Þau réttindi munu eftir sem áður njóta verndar sem atvinnuréttindi þeirra er stunda útgerð eða með öðrum orðum sem óbein eignarréttindi.

Með hinu nýja stjórnarskrárákvæði verður hins vegar staðfest að útgerðarmenn eða aðrir sem njóta slíkra heimilda munu aldrei öðlast beinan og varanlegan eignarrétt að fiskveiðiauðlindinni enda girðir ákvæðið fyrir að slíkt varanlegt afsal þjóðareignar geti átt sér stað.

Það er eðlilegt að spurt sé um kostnað við stjórnlagaþingið. Nú er þetta mál með þeim hætti að það er ekki stjórnarfrumvarp sem slíkt, það flytja fjórir þingmenn. Ég flyt það ásamt hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og Birki J. Jónssyni og skyldan gagnvart því að kostnaðarmeta stjórnarfrumvarp er því ekki fyrir hendi. Engu að síður höfum við gert gangskör að því að það liggi fyrir og verður lagt fyrir þá nefnd sem fær þetta til umræðu hver kostnaðurinn verður og hvað lagt er þá til grundvallar í þeim kostnaði.

Gert er ráð fyrir að full vinna verði að sitja þetta stjórnlagaþing og það sitji í eitt og hálft ár. Það ræðst þá sjálfsagt af tímalengd stjórnlagaþingsins hver endanlegur kostnaður verður við það.