136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:53]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel að svarið við fyrri spurningunni hafi verið nokkuð afdráttarlaust, þ.e. að ekki er hugmyndin með þessu ákvæði að grafa undan núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og það felst ekki í ákvæðum frumvarpsins að dómi 1. flutningsmanns að fótum sé kippt undan því kerfi. Ég tel að mjög mikilvægt sé að þetta liggi fyrir en þetta er ekki skýrt að mínum dómi í frumvarpstextanum eins og hann liggur fyrir. En svo langt sem það nær er jákvætt að fá svarið fram.

Að því er varðar kostnaðinn við stjórnlagaþingið hlýtur það náttúrlega að vera augljóst mál að 41 maður í fullri vinnu í tvö ár á þingmannslaunum — þó að þau hafi nýlega verið lækkuð — kostar stórfé. Það getur ekki verið mikið mál að slá á það, húsnæðiskostnað o.fl. Þetta eru háar upphæðir og það verður að koma fram hvað flutningsmenn frumvarpsins og ríkisstjórnin er með í huga hvað þetta varðar þegar verið er að reyna að draga úr útgjöldum á bæði borð í ríkisfjármálum.