136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi auðlindaákvæðið. Það má rétt vera að það hafi ekki verið neitt endanlegt samkomulag hvað auðlindaákvæðið varðar enda sýndi það sig eins og ég nefndi áðan í máli mínu að hv. þm. Geir H. Haarde og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, fluttu ákvæðið sérstaklega eins og þeir vildu að það liti út sem ber auðvitað vott um að það var ekki samstaða um það. En það sýnir líka að ákvæði varðandi stjórnarskrárbreytingar eru fluttar inn í þingið og það af formönnum stjórnarflokka þó að það sé ekki samkomulag milli allra flokka um það á þingi og því tel ég mikilvægt að halda til haga.

Varðandi aðferðir við að breyta stjórnarskránni þá má vera að sú leið sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. að hafa fjórar umræður og þrjár vikur á milli, hafi einhvers staðar borið á góma milli flokkanna. En ég spyr, er það ekki rétt munað hjá mér af því ég þekki það ekki nægilega vel, að það hafi fyrst og fremst verið Sjálfstæðisflokkurinn sem vildi hafa þann háttinn á varðandi fjórar umræður og þrjár vikur á milli sem ég tel alveg óþarfa og flæki bara málin?

En meginatriðið í þessu er aðferðin við að breyta stjórnarskránni og það sé hægt að fara þá leið að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing og efna til kosninga það tel ég vera grundvallaratriði, eitt af helstu atriðum í þeirri breytingu sem við erum að gera á stjórnarskránni, þ.e. að ef gerðar eru breytingar þá sé hægt að fara með málið beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það tel ég það mikilvægasta í þessu en ekki hvort umræðurnar um breytingarnar eru þrjár eða fjórar eða hvort ein, tvær eða þrjár vikur líði á milli þeirra.