136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sannfærð um að það verður töluverður kostnaður af þessu stjórnlagaþingi. Ég held að það sé alveg ljóst. En þá er spurning hvaða mat menn leggja á það hvort þetta mál sé það mikilvægt að fara eigi út í þann kostnað sem honum fylgir. Mitt mat á því er afdráttarlaust já. Ég held að með þessari breytingu sé verið að færa þjóðinni afar miklar lýðræðisumbætur sem réttlæti þann töluverða kostnað sem verður af stjórnlagaþingi. Stjórnlagaþing á meðal annars að skoða kjördæmaskipan og kosningar til Alþingis og mér finnst vel hugsanlegt að stjórnlagaþingið skoði það sem stundum hefur verið nefnt hvort ætti ekki t.d. að fækka þingmönnum á móti. Það er dýrt að hafa 63 þingmenn á þingi og spurning hvort það sé nauðsynlegt.