136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:06]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst með miklum ólíkindum hvernig forgangsröðunin er núna. Ég veit ekki annað en að þeir stjórnarflokkar sem nú sitja hafi gagnrýnt það fyrr að ekki væri verið að taka á vandamálum heimila og fyrirtækja og ég spyr: Með hvaða hætti eru þau atriði sett í forgang núna? Svarið er: Það er ekki gert.

Um helgina birtust upplýsingar, sem satt að segja voru mjög uggvænlegar, um það hvernig stærsti banki þjóðarinnar hefði hagað lánamálum til eigenda sinna. Ég hefði talið að skylda Alþingis væri að verja mestum tíma sínum í dag til að ræða með hvaða hætti löggjafinn eigi að bregðast við þannig starfsemi, sem greinilega hefur viðgengist án þess að við stjórnmálamenn, eftirlitsstofnanir, seðlabanki eða aðrir hefðu hugmynd um að hún væri í gangi. (Forseti hringir.) Full ástæða er til að taka á þeim málum (Forseti hringir.) og það má ekki bíða. (Forseti hringir.)