136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða allt annað mál en hér hefur verið rætt. 6. mál á dagskrá þingsins er frumvarp um heimild til samninga um álver í Helguvík. Það frumvarp, hæstv. forseti, er merkt sem stjórnarfrumvarp. Mig langar til að vita, hæstv. forseti, hvort það sé stjórnarfrumvarp, vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, hefur lýst því yfir að þingflokkur Vinstri grænna standi ekki á bak við það. En frumvarpið er engu að síður flutt sem stjórnarfrumvarp þótt helmingurinn af ríkisstjórninni styðji það ekki og er hún þó minnihlutastjórn. Frumvarpið er greinilega lagt fram í þeirri von að stjórnarandstaðan dragi helminginn af ríkisstjórninni að landi á meðan hinn helmingurinn er grár fyrir járnum í baráttu sinni gegn frumvarpinu. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Mér finnst ekki mikill bragur á þessu, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, hjá hæstv. ríkisstjórn og vil fá að vita hvort það gangi upp (Forseti hringir.) að frumvarpið sé lagt fram og rætt sem stjórnarfrumvarp.