136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta er sérkennilegt. Fjórir sjálfstæðismenn hafa komið hér upp og þrír þeir fyrstu höfðu uppi nákvæmlega sömu ræðuna og sá þriðji var með afbrigði af þeirri ræðu. Það sem þeir eru á móti er 3. mál á dagskrá, stjórnarskipunarlög, þar sem lagðar eru til miklar umbætur í lýðræðismálum, stjórnkerfismálum og atvinnumálum, því ein grein í stjórnarskipunarlögunum gengur út á þjóðareign á auðlindum Íslands. Er Sjálfstæðisflokkurinn á móti því að auðlindir Íslands séu þjóðareign? Hefur hann athugasemdir við það? Telur hann það ekki brýnt mál þegar það liggur loksins fyrir eftir 18 ára samfellda stjórn Sjálfstæðisflokksins með kvótakerfi, einkavæðingu og alls konar græðgisvæðingu þar sem auðmenn hafa verið látnir leggja undir sig þjóðarauðlindir Íslands? Það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að gera, forseti, er það að hann þykist (Gripið fram í.) ætla að greiða fyrir þingstörfum en er í raun að stefna (Gripið fram í.) að því að hér sé allt uppi í lofti þegar þingi lýkur (Gripið fram í.) þannig að hann eigi þó (Forseti hringir.) krækibers möguleika í helvíti í (Forseti hringir.) kosningunum á næstunni. (Gripið fram í: Ég hélt að menn ættu að gæta orða sinna.)