136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá – tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir þann áhuga sem þeir sýna því að greiða góða leið frumvörpum iðnaðarráðuneytisins. Ég þakka þeim áhugann á því að styðja frumvarpið um Helguvík, sem ég mæli fyrir síðar í dag. Ef hugur fylgir máli vænti ég þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé þá til í að greiða fyrir því með því að stilla í hóf málflutningi sínum í öðrum málum í staðinn fyrir að hóta hér málþófi. (Gripið fram í.)

Ég vil svara hv. þm. Jóni Magnússyni um með hvaða hætti ríkisstjórnin vinnur að því að draga úr atvinnuleysi, t.d. með þeim 11 tillögum sem skapa a.m.k. 4.000 ársverk sem samþykktar voru í ríkisstjórninni á föstudag.

Hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni vil ég svara varðandi spurningu um hvað sé stjórnarfrumvarp. Stjórnarfrumvörp eru, eins og hv. þingmaður veit, þau frumvörp sem ríkisstjórnin heimilar til framlagningar og sem þingflokkar ríkisstjórnarinnar staðfesta sömuleiðis til framlagningar. (SKK: Hvaða þingflokkar eru það?) Það er það sem skiptir máli.

Um þau ákvæði sem eru hér í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið þátt í að undirbúa tvö þeirra og lýst fylgi (Forseti hringir.) margítrekað, þar á meðal hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Forseti hringir.) tvisvar sinnum héðan úr þessum ræðustól í síðasta mánuði. Það var þriðja atriðið. Fjórða (Forseti hringir.) atriðið er stjórnlagaþing, ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn er á móti því en hann (Forseti hringir.) má ekki við straumnum. Hann má ekki vinna gegn því sem fólkið vill.