136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

álver á Bakka.

[15:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það gleður mig að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson skuli vera glaður í dag og hafa skopskynið í lagi. Hv. þingmaður mun ekki hlæja dátt að hæstv. samgönguráðherra nema þá í fagnaðarskyni þegar hann ekur í fyrsta skipti í gegnum Vaðlaheiðargöngin. Hv. þingmaður sagði að hæstv. samgönguráðherra og Samfylkingin hefðu lofað þessu í upphafi kjörtímabilsins, og bætti því við að því yrði lokið fyrir enda kjörtímabilsins. Hefur það farið fram hjá hv. þingmanni að það urðu hér stjórnarslit? Hefur það farið fram hjá hv. þingmanni, m.a. að kröfu Framsóknarflokksins, að það er búið að boða til þingkosninga í vor, þannig að kjörtímabilið sem átti að vera fjögur ár verður ekki nema tæplega tvö ár? Hugsanlega hefur það farið fram hjá hv. þingmanni. Í öllu falli vona ég að hann verði glaður áfram, ég vona líka innilega að hv. þingmaður og hv. þm. Birkir Jón Jónsson verði báðir mjög glaðir í lok næstu helgar. Í öllu falli segi ég að það hefur ekki skort á minn vilja í þessu máli, það eru aðrar aðstæður sem hafa (Forseti hringir.) leitt til þess að það er ekki komin ákvörðun. Og hv. þingmaður þarf ekkert að segja mér um viðureign mína við minn eigin þingflokk um þetta mál.