136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

innheimtuaðgerðir vegna afnotagjalda RÚV.

[15:54]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og bara svo því sé svarað hreint og beint var mér ekki kunnugt um að til stæði núna að fara í einhverjar sérstakar innheimtuaðgerðir sökum vangoldinna afnotagjalda en ég mun afla mér upplýsinga. Hv. þingmaður spyr einnig um það hvernig að því verði staðið, ég mun kynna mér það líka í ljósi þessara umræðna.

Ég tel eðlilegt að ríkisstofnanir, að sjálfsögðu, gangi mildilega fram núna í öllum innheimtuaðgerðum. Það á að sjálfsögðu við um Ríkisútvarpið eins og aðrar ríkisstofnanir. Ég mun skoða þetta mál og kanna hvort gengið sé hart fram í þessum efnum. Þetta er líklega eitt af síðustu skiptunum sem innheimt verða afnotagjöld eins og hv. þingmanni er kunnugt þar sem verið er að breyta formi á innheimtu gjalda til Ríkisútvarpsins í svokallað útvarpsgjald. Sú innheimta mun breytast en ég mun taka til greina þær ábendingar sem hér koma fram og kanna hvernig að þessum málum er staðið hjá Ríkisútvarpinu.