136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

5. fsp.

[15:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég ætlaði að beina fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra vegna atburða dagsins sem átt hafa sér stað á fjármálamarkaði. Það eru mikil og djúpstæð vonbrigði að ríkið hafi nú tekið yfir starfsemi Straums fjárfestingarbanka og skipað bankanum skilanefnd. Þetta eru vonbrigði fyrir fjármálakerfið, fyrir eigendur bankans, fyrir stjórnendur hans og ekki síður fyrir starfsfólkið og sár vonbrigði fyrir okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna og vonuðum að Straumur fjárfestingarbanki mundi lifa þetta efnahagshrun af án þess að ríkið þyrfti að yfirtaka bankann eftir það sem á undan hafði gengið varðandi Kaupþing, Landsbankann og Íslandsbanka.

Nú liggur það fyrir að ríkið hefur tekið Straum fjárfestingarbanka yfir og skipað honum skilanefnd, og það er fyrsti bankinn sem fer á hliðina í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þess vegna tel ég mikilvægt að fá upplýsingar um það til hvaða aðgerða hæstv. viðskiptaráðherra ætlar að grípa og hvernig hann sjái framhaldið fyrir sér.

Það er ljóst að skuldir hins opinbera hafa aukist verulega og ég sé í erlendum fjölmiðlum að menn telja að fall Straums hafi miklar afleiðingar fyrir þjóðarbúið. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hversu miklar skuldbindingar falli á ríkið vegna yfirtöku Straums, hversu háar fjárhæðir eru tryggðar af ríkinu og þar með skattgreiðendum og framtíðarkynslóðum. Hvernig ætla stjórnvöld að halda utan um eignir bankans sem eru verulegar, þ.e. um 600 milljónir evra, og hvert verður síðan framhaldið? Verður farin sama leið með Straum og hina bankana (Forseti hringir.) eða má búast við því að bankinn haldi áfram í greiðslustöðvun og verði þá í framhaldinu tekinn (Forseti hringir.) til gjaldþrotaskipta?