136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Hafi einhvern tíma verið ástæða til að ræða stöðu efnahagsmála á Alþingi þá er það á degi eins og þessum þegar við horfum upp á það að skilanefnd hefur verið sett yfir starfsemi Straums – Burðaráss fjárfestingabanka hf. og er það fjórða stóra fyrirtækið á sviði fjármálamarkaðar sem er sett undir sérstaka skilanefnd. Á þessum tímum þar sem hver fjármálastofnunin á fætur annarri riðar til falls, fyrirtæki verða gjaldþrota og heimili standa frammi fyrir gríðarlegum skuldbindingum og atvinnuleysi er eðlilegt að í samfélaginu vakni ákveðnar spurningar og krafa um svör. Ég hef þessa umræðu um efnahagsmálin með það að markmiði að almenningur í landinu fái svör um hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera á næstu dögum og vikum, sem eru mjög mikilvægar í sögu þjóðarinnar því ekki er sama hvernig við höldum á málum á næstunni.

Við framsóknarmenn kynntum á dögunum efnahagstillögur okkar. Þær eru síður en svo hafnar yfir gagnrýni en að þeim var þannig staðið að fjölmargir hagfræðingar og sérfræðingar á sviði efnahagsmála komu að því að semja þær og það tók margar vikur. Það voru því mikil vonbrigði fyrir okkur framsóknarmenn að heyra undirtektir frá ýmsum aðilum sem virtust einungis þurfa nokkrar klukkustundir til að slá tillögurnar út af borðinu. Við þurfum að ná samstöðu hér á vettvangi Alþingis um ákveðnar leiðir til að koma til móts við erfiða stöðu atvinnulífsins og heimilanna og við þurfum að ná samstöðu um það á þessum vettvangi og með það að markmiði lögðum við framsóknarmenn tillögurnar fram.

Þessar tillögur eru ekki settar fram til að slá einhverjar pólitískar keilur heldur til að forða íslensku þjóðfélagi frá mögulegu kerfishruni. Sannfæring mín er að verði ekkert að gert — og ef við ætlum að fljóta sofandi að feigðarósi — geti verið raunveruleg hætta á mögulegu kerfishruni og jafnvel upplausn í íslensku samfélagi. Við skulum átta okkur á því.

Með þessari umræðu vil ég inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort hún taki efnislega undir þær fjölmörgu hugmyndir sem við framsóknarmenn höfum lagt fram á síðustu vikum til að koma til móts við yfirgengilegan vanda heimila og fyrirtækja. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga:

Hvenær sér ráðherrann fyrir sér að vaxtalækkunarferli geti hafist? Við leggjum mikla áherslu á að það hefjist sem fyrst því við horfum upp á að allt lausafé fyrirtækja í landinu er að þurrkast upp og staða margra heimila er óviðunandi í ljósi hárra stýrivaxta. Ég spyr ráðherrann líka að því hvenær búast megi við því að stofnefnahagsreikningur bankanna liggi fyrir. Það verður að gerast sem allra fyrst því bankarnir munu ekki verða starfhæfir fyrr en það liggur fyrir.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hver hennar skoðun sé á því að erlendir kröfuhafar eignist hlut í ríkisbönkunum. Við framsóknarmenn teljum mikilvægt að þeir komi að eignarhaldi á bönkunum því það mundi vafalaust opna nýjar lánalínur gagnvart útlöndum og auka á trúverðugleika íslensks efnahagslífs og veitir svo sannarlega ekki af.

Ég spyr ráðherrann hver skoðun hennar er á því að semja við eigendur jöklabréfanna um hvort og hvernig þeir fara með þá fjármuni úr landi. Niðurstaða slíkra viðræðna er ein af grunnforsendum þess að við getum aflétt gjaldeyrishöftum hér á landi, sem færðu íslenskt efnahagslíf í einu vetfangi áratugi aftur í tímann. Við höfum líka hreyft við þeirri hugmynd að lífeyrissjóðir megi eiga viðskipti með gjaldeyri og að sérstökum uppboðsmarkaði með gjaldeyri verði komið á fót þannig að lífeyrissjóðirnir geti komið með fjármagn sitt inn í landið á hagstæðum kjörum. Mikilvægt er að lífeyrissjóðirnir geti komið að uppbyggingu atvinnulífsins og ekki veitir af því að atvinnulífið fái þá innspýtingu sem það þarf á að halda. Þess vegna teljum við mikilvægt að þessum uppboðsmarkaði verði komið á fót þannig að erlendir aðilar sem eiga fjármuni hér á landi getið farið með þá út úr landinu en aftur á móti geti lífeyrissjóðirnir komið með fjármuni sína inn í landið á hagstæðum kjörum. Það er mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að við fáum svör við þessari spurningu.

Ég vil líka inna fjármálaráðherra, af því að hann er viðstaddur þessa umræðu, sérstaklega eftir því hvernig hann sjái stöðu sparisjóðanna í landinu til framtíðar. Er unnið markvisst að því í ráðuneyti hans að styrkja stöðu sparisjóðanna og þá ekki hvað síst stöðu sparisjóða á landsbyggðinni? Því miður er framtíð sparisjóðanna nokkuð óljós en miðað við málflutning hæstv. ráðherra á undangengnum vikum og árum eru skoðanir hans mjög skýrar í því að við eigum að varðveita sparisjóðaformið. Því er mikilvægt að menn vinni að því og styrki sparisjóðakerfið í landinu.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin þarf síðast en ekki síst að móta sér stefnu um það hvernig við viljum sjá uppbyggingu íslensks atvinnulífs í framtíðinni. Ríkisstjórnin þarf jafnframt að senda bönkunum sem eru í ríkiseigu skýr skilaboð. Ríkisbankarnir eiga orðið bílasölur og verktakafyrirtæki og miðað við þær fréttir og spár sem við heyrum er áætlað að um 3.500 fyrirtæki fari í þrot á næsta ári, á næstu 12 mánuðum. Við hljótum að spyrja okkur að því: Á ríkið að eiga þessi 3.500 fyrirtæki eða ætla menn að koma til móts við raunverulega þörf atvinnulífsins og afskrifa hluta af þeim lánum sem hafa hækkað svo gríðarlega í ljósi gengishruns krónunnar og þar af leiðandi mikillar verðbólgu? Ætlar ríkisstjórnin sér að eignast öll þessi fyrirtæki, að ríkisbankarnir eigi þau, eða er hún á því að þau eigi að vera einkarekin áfram? Ég vara mjög við því að feta í fótspor Sovétríkjanna sálugu þannig að allt verði ríkisins hér. Að mínu viti má það ekki verða hið nýja Ísland, þannig að gott væri að heyra hæstv. fjármálaráðherra lýsa því hvernig við horfum á framtíðareignarhald á íslensku atvinnulífi. Á íslenskt atvinnulíf að vera jafnvel 70–80% í eigu ríkisins? Það er eðlilegt að spurt sé. Við þessu þurfum við að fá svör.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn teljum að í því sérstaka ástandi sem nú ríkir hér á landi þurfi að ráðast í róttækar aðgerðir, ekki einhverjar smáskammtalækningar eða frestun á vandanum. Ef við frestum vandanum fram á haustið getum við horfst í augu við ómögulega stöðu, ástand sem getur leitt til algers glundroða í íslensku samfélagi, kerfishruns. Við verðum að afstýra því.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala mikið um hversu dýrar efnahagstillögur Framsóknarflokksins eru. En við skulum nálgast málið frá öðru sjónarhorni. Hver er ávinningurinn af því fyrir íslenskt samfélag og íslenskan almenning að forðast mögulegt kerfishrun? Hverjir verða í góðum málum á Íslandi ef við horfum upp á íslenskt efnahags- og atvinnulíf hrynja? Það eru mjög alvarleg tíðindi sem við heyrum úr íslensku atvinnulífi og ég finn fyrir því þótt ekki séu lengur mótmælafundir á Austurvelli að fólk krefst svara. Fólk krefst framtíðarsýnar og stjórnmálamanna sem þora að ráðast í róttækar kerfisbreytingar og róttækar aðgerðir til að við getum byggt upp nýtt Ísland. Við framsóknarmenn sögðum, þegar við lofuðum ríkisstjórninni að verja hana vantrausti gegn ákveðnum tillögum, að við mundum styðja öll góð mál og við tilkynntum líka að við mundum leggja fram tillögur okkar og vonuðumst til þess að ríkisstjórnin mundi horfa til þeirra. Við þurfum að koma okkur upp úr því hjólfari sem við höfum verið í undanfarin ár, að ef andstæðingurinn kemur fram með einhverjar tillögur ákveði menn fyrir fram að þær séu vonlausar. Við höfum ekki efni á því. Við þurfum að spila í sama liðinu. Við þurfum að skoða allar tillögur gaumgæfilega og ég endurtek enn og aftur í mikilli hreinskilni við hæstv. forsætisráðherra að okkur misbuðu þær móttökur sem efnahagstillögur Framsóknarflokksins fengu á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar vegna þess að þær eru lagðar fram til að afstýra mögulegu kerfishruni hér á landi, ekki til þess að slá pólitískar keilur en ég hvet hæstv. ríkisstjórn til samstöðu á erfiðum tímum, sama hvort við ræðum málefni fyrirtækja eða heimila því við hljótum öll að hafa sama markmið að skapa betra Ísland, en okkur getur greint á um leiðir að því marki.