136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja umræðu um endurreisn efnahagslífsins vegna þess að við vitum öll sem erum hér inni að það er brýnasta verkefni okkar allra, að koma efnahagsmálunum aftur í gang. Kreppan í efnahagslífinu kemur við okkur öll, bæði heimilin í landinu og atvinnustarfsemina. Það er gríðarlega mikilvægt að haldið verði þannig á spilunum í endurreisninni að ríkissjóður taki ekki á sig of mikla áhættu vegna t.d. endurreisnar bankanna sem er svo mikilvæg.

Ég bið menn að hafa hugfast að við eigum hér við fjármálakrísu. Það er bankakrísa. Það voru bankarnir sem gáfu sig. Það voru bankarnir sem tóku of mikla áhættu, sýndu glannaskap og stóðust ekki erfiðar aðstæður á fjármagnsmörkuðum erlendis.

Atvinnustarfsemin í landinu brást ekki og fyrirtækin í landinu fóru ekki fram úr sér. Þau hafa hins vegar þurft að glíma við hátt vaxtastig og það hafa verið á ýmsan hátt erfiðar ytri aðstæður. Þess vegna er alveg sérstaklega brýnt að stjórnvöld komi kröftuglega til móts við atvinnulífið, taki í höndina á þeim sem þar eru að starfa og aðstoði þau við að komast yfir erfiðasta hjallann. (Gripið fram í: En kvótabraskararnir?) Ég er þeirrar skoðunar að við höfum gert ýmislegt vel en við þurfum að gera miklu betur.

Segja má að fólkið í atvinnulífinu hafi unnið kraftaverk úti um allt land. Fólkið í fyrirtækjunum og stjórnendur þeirra glíma við óhemju erfiðar aðstæður og hafa reyndar gert um allt of langa hríð, við hátt vaxtastig, minnkandi umsvif í efnahagslífinu, vaxandi atvinnuleysi og samdrátt í tekjum. Allt veldur þetta fyrirtækjunum í landinu miklum búsifjum og við höfum ríkar skyldur til þess að koma til móts við þennan vanda.

Sama gildir með stöðu heimilanna. Þar hefur margt verið vel gert en það þarf að gera meira. Ég vil taka undir áhyggjur hv. frummælanda í dag, við höfum ekki klárað umræðuna um hvernig leysa á út alla þessa miklu afskriftarþörf sem er í nýja bankakerfinu. Það hlýtur auðvitað að valda okkur öllum gríðarlega miklum áhyggjum að lagt er upp með að hið nýja bankakerfi, bankakerfi nýju bankanna, Nýja Landsbankans, Nýja Kaupþings og Nýja Glitnis, hefur lánasafn sem er það lélegasta sem menn hafa séð síðan í kreppunni miklu. Rætt er um að afskriftarþörfin af lánasafni nýju bankanna sé slík að menn hafa ekki séð annað eins í fjármálakrísum annarra landa í seinni tíð. Þess vegna vil ég taka undir með hv. frummælanda um að við þurfum að ræða nánar um hvernig leysa á út allar þessar afskriftir. Ætla menn að fara í veðköll og nauðungarsölur á öllum þeim fyrirtækjum og heimilum sem rata í vanda?

Ég fagna því sérstaklega sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að nú standi til að kortleggja nákvæmlega skuldastöðu heimilanna og stöðu þeirra. Það var orðið tímabært. Það er tímabært að við sem ræðum nánast á hverjum degi um aðgerðir til aðstoðar heimilunum í landinu höfum í það minnsta gögnin og upplýsingarnar til þess að taka ákvarðanir sem skipta máli. Það er í sjálfu sér alveg ótrúlegt að við skulum hafa látið veturinn líða fram á vor — það er kominn marsmánuður og við eigum von á því innan einhverra daga að fá heildaryfirsýn yfir stöðu heimilanna.

Við höfum rætt í öllum þingflokkum um hugmyndir sem varða aðstoð við heimilin án þess að hafa þessar mikilvægu upplýsingar í höndunum. Á sama hátt er alveg fráleitt að það sé liðinn þetta langur tími. Ég tók eftir því að hæstv. forsætisráðherra vildi kenna fyrri ríkisstjórn um þann vanda en hún sat einmitt í þeirri ríkisstjórn og situr nú sem forsætisráðherra í þeirri nýju. Það er fráleitt að við ræðum hér um aðstoð við fyrirtækin og endurreisn bankakerfisins án þess að upplýsingar um heildarstöðuna liggi fyrir vegna þess að ég veit að upplýsingar um þetta liggja fyrir í ríkisstjórninni frá ráðgjöfum hennar. Hvernig lítur lánasafnið í nýju ríkisbönkunum út, þó ekki nema gróðamyndin? Það er sú dökka mynd sem ég er að tala um. Það er hún sem veldur mér áhyggjum og við þurfum að fara að ræða miklu markvissari og afdrifaríkari ákvarðanir til þess að koma til móts við þarfir atvinnulífsins þegar greitt verður úr þeim vanda.

Ég lýsi yfir efasemdum um að við séum að gera rétt með því að taka yfir svo mörg vandamálalán í hinu nýja bankakerfi, í nýju ríkisbönkunum. Mig grunar að það gæti verið mun skynsamlegra að skilja eftir hluta af vandanum í gamla bankakerfinu og leyfa kröfuhöfunum þar og þeim sem þar eiga hlut að máli að eiga við það. Ástæðan er einföld: Hvers vegna ættum við að setja ríkið í áhættu við að fjármagna bankakerfi með jafnlélegt lánasafn og rætt er um að nýja bankakerfið verði á Íslandi? Þetta er hlutafé. Þetta er áhættufjárfesting fyrir ríkið. 5% vanmat eða 5% ofmat á eignum nýja bankakerfisins getur valdið jafnvel hundruða milljarða tjóni fyrir ríkissjóð. Það er á þeim forsendum sem við þurfum að nálgast þetta verkefni.

Ég hvet ríkisstjórnina til allra góðra verka en lýsi yfir vonbrigðum með að nú þegar við hefjum endurreisnina skuli berast fréttir af hugmyndum um skattahækkanir frá fjármálaráðuneytinu og eins hvað varðar það hik sem er á ríkisstjórninni þegar rætt er um gjaldeyrisskapandi (Forseti hringir.) atvinnustarfsemi, til að mynda í stóriðjum.