136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að það er mikilvægt að menn hafi í huga að skuldsetja ekki ríkissjóð og binda honum ekki frekari byrðar en óumflýjanlegt er út af þessu bankahruni.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að þetta er í grunninn banka- eða fjármálakreppa og fyrirtækin almennt voru ekki stórir gerendur í henni. Það breytir ekki hinu að fyrirtækin eru stórkostlega löskuð og hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni af þessu hinu sama bankahruni. Auðvitað spiluðu þar ýmsir með, fóru kannski óvarlega sem þátttakendur í veislunni og sitja núna sviðnir eftir. Það á líka við um fjölmarga atvinnurekendur og fjárfesta úr fjármálaheiminum.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er bagalegt að hafa ekki greinarbetri gögn um t.d. heildarskuldastöðu heimilanna en núna loksins eru að verða til og fæðast. Seðlabankinn tók að sér það verk af því að öðrum var ekki til að dreifa. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins mættu þá kannski velta því fyrir sér einu sinni í viðbót hvort það hafi verið rétt að slátra Þjóðhagsstofnun á sínum tíma.

Ég held að það sé heldur ekki einföld lausn á þessu vandamáli að skilja meira eftir í gömlu bönkunum af lélegum lánasöfnum sem hér voru rædd. Jú, vissulega, en við skulum þá ekki gleyma að á bak við þau lánasöfn og í húfi eru í sumum tilvikum alger undirstöðu- og lykilfyrirtæki í íslensku atvinnulífi. Hvorum megin hryggjar viljum við að þau lendi, í nýju bönkunum og í atvinnulífi framtíðarinnar eða í klónum á kröfuhöfum gömlu bankanna? Málin eru ekki alltaf svona einföld.

Því miður liggur enn ekki fyrir til fulls, virðulegi forseti, hversu stór reikningurinn verður af efnahagshruninu, af óráðsíu og óstjórn undangenginna ára, þar á meðal af tæplega 18 ára vakt Sjálfstæðisflokksins, en myndin er að skýrast.

Mesta áhyggjuefnið fyrir Ísland núna er að fyrir utan okkar eigin vanda dýpkar nú hin alþjóðlega efnahagskreppa. Það kemur illa við þá máttarstoð okkar sem verður að vera okkar tæki út úr erfiðleikunum, útflutningurinn, þ.e. atvinnulífið og alveg sérstaklega útflutningurinn. Við þurfum á því að halda að hafa hér öfluga útflutningsstarfsemi næstu árin, reka þjóðarbúið með myndarlegum afgangi í viðskiptum við útlönd. Öðruvísi ráðum við aldrei við skuldirnar sem þessi ósköp eru því miður að hlaða á herðar okkar. Og það vinnur gegn okkur, eins og glöggt sést t.d. í sjávarútveginum þessar vikurnar, að efnahagsástandið í umheiminum og okkar helstu markaðssvæðum er að hríðversna og það þyngir fyrir fæti með sölu afurða, birtist í verðfalli, birgðasöfnun o.s.frv.

Það jákvæða á sinn hátt er þó það að við erum stóriðja í matvælaframleiðslu og sú vara hefur betur og lengur aðgengi að markaðnum en margt annað sem hrynur algerlega núna. Ef Ísland ætti að byggja á útflutningi bíla væru tölurnar ekki björgulegar, hjá helstu framleiðendum þar er 50% samdráttur eða meira.

Glíman við atvinnuleysið er algjört undirstöðuatriði og þess vegna skipta miklu máli aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að örva atvinnulífið og reyna að lífga vinnumarkaðinn með vorinu eða sumrinu. Það skiptir máli að fá þátttöku í þeim aðgerðum frá einkaaðilum, fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum þannig að menn nýti sér öll þau færi sem til eru til að skapa störf og auka verðmæti.

Lækkun verðbólgu er jákvæðar fréttir og forsendur vaxtalækkunar eru núna allar til staðar. Það er enginn og jafnvel minni en enginn undirliggjandi verðbólguþrýstingur og með samhliða styrkingu á gengi krónunnar eru allar forsendur orðnar til fyrir því að vextir fari að lækka, og það umtalsvert á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hér og er um það bil að ljúka úttekt sinni, mun gera það í þessari viku. Í tengslum við það hafa farið fram rækilegar viðræður um stöðu mála þar sem menn bera saman stöðuna nú og það mat sem fram fór í október/nóvember. Þar er sumt jákvæðara, eins og hagstæðari verðbólgutölur, styrking á gengi krónunnar og jákvæðar forsendur fyrir vaxtalækkun. Annað er því miður neikvæðara en menn reiknuðu með í nóvember. Þar má taka að heildarskuldsetning þjóðarbúsins virðist heldur meiri, fyrst og fremst og nánast eingöngu vegna meiri skulda einkaaðila. Áætlanir hvað varða ríkissjóð og skuldastöðu hans standast fyllilega það sem gert var ráð fyrir í október/nóvember en skuldirnar hjá einkaaðilum eru meiri. Tekjufall og samdráttur í þjóðarbúskapnum er núna áætlað heldur meira en þá var gert og atvinnuleysi er meira en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði ráð fyrir í sínum spám í nóvember en algerlega í takt við það sem íslenskir aðilar spáðu þá og gera enn, þ.e. að það nálgist 10% á þessu ári.

Það eru miklir erfiðleikar og auðvitað verða áfram einhver áföll. Því miður er ekki allt búið enn eins og morgunninn varð okkur til vitnis um þegar enn eitt áfallið reið yfir, stór fjárfestingarbanki komst í þrot og var yfirtekinn.

Ég er engu að síður bjartsýnn á að nú sjái senn fyrir endann á slíkum hlutum og að endurskipulagning bankakerfisins muni standast samkvæmt þeim tímaáætlunum sem nú er unnið eftir, að því ljúki í síðari hluta þessa mánaðar og fyrir miðjan næsta mánuð. Það tekur til sparisjóða og annarra sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtækja einnig. Ég trúi því og treysti að fyrir miðjan apríl verðum við nokkurn veginn með fast land undir fótum í þessum efnum og þar með svara ég líka spurningu hv. málshefjanda um sparisjóðina. Að sjálfsögðu verður allt gert sem hægt er til þess að treysta undirstöður sparisjóðakerfisins og hafa það sem eina af máttarstoðum bankaþjónustu okkar í landinu.

Varðandi eignarhald í atvinnulífinu eru engin markmið um það að færa meira af því til hins opinbera en óumflýjanlegt er og þá tímabundið vegna þeirra ástæðna einfaldlega að ríkið fær þær í hendur, annaðhvort í bönkum sínum eða með öðrum hætti. Markmiðið er þá að sjálfsögðu að koma því aftur út í lífið og að því verður unnið hörðum höndum.

Ég trúi því, forseti, (Forseti hringir.) að með lækkandi verðbólgu og vöxtum og hækkandi sól förum við að geta horft fram til heldur betri tíma (Forseti hringir.) nú í vor. Það verður erfitt út þetta ár (Forseti hringir.) og að minnsta kosti langt inn á það næsta (Forseti hringir.) en þar með ættu líka að vera góðar forsendur fyrir því að botninum verði náð.