136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:44]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Lærdómurinn af feigðarför fjármálakerfisins á að vera mönnum sá að fara varlega af stað á ný. Það er ekki það eftirsóknarverðasta í þessum heimi að lokinni slíkri reynslu að innleiða á nýjan leik algjört frelsi þeirra sem starfa í þessari atvinnugrein. Þvert á móti eigum við að leitast við að setja þessari atvinnustarfsemi skynsamlegar reglur og takmarkanir sem lúta að því að treysta hagsmuni þjóðarinnar og koma í veg fyrir að sú staða geti aftur komið upp sem nú er upp komin.

Íslensku bankarnir fóru þannig að ráði sínu að erlendir kröfuhafar eiga hér inni þúsundir milljarða króna sem er ólíklegt að þeir fái greitt nokkurn tíma upp í. Við þurfum að setja niður deilur við erlenda kröfuhafa um uppgjör á þessum skuldum. Þetta eru í raun þrotabú sem eru hér starfandi og ríkissjóður hefur yfirtekið og það þarf og er kannski það mikilvægasta að ljúka uppgjöri á þeim búum þannig að hinir erlendu kröfuhafar verði sáttir við niðurstöðuna þó svo að þeir fái ekki nema lítið brot greitt upp í sínar kröfur. Við erum það háð umheiminum, íslenskt þjóðfélag, við erum það háð viðskiptum við útlönd að við getum ekki rekið hér nútímaþjóðfélag í deilum við erlendar viðskiptaþjóðir okkar. Við þurfum að komast frá því máli fyrr en seinna með samkomulagi sem við getum ráðið við og getum staðið að.

Í öðru lagi þurfum við að koma atvinnufyrirtækjum landsins á réttan kjöl á nýjan leik því að atvinnuleysið og tekjuleysið sem leiðir af því er það versta sem ríkissjóður stendur frammi fyrir um þessar mundir. Því fyrr sem við komum atvinnulífinu í gang því betra. Til þess þarf talsvert mikið fé og uppi hafa verið hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir m.a. leggi til töluvert af fjármunum til að endurfjármagna íslenskt atvinnulíf.

Bæta þarf rekstrarskilyrði atvinnureksturs frá því sem nú er. Vextir eru gríðarlega háir en það helgast af því að verðbólgan hefur verið há. Það verður að lækka vexti en við vitum að það verður að gerast í takt við lækkun verðbólgu. Hver dagur er dýrmætur í þeim efnum og það er eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að vextir lækki sem allra fyrst.

Að lokum, virðulegi forseti, þarf að sjá til þess að heimili landsins sem hafa tekið á sig skuldbindingar í íbúðarhúsnæði geti ráðið við þær skuldbindingar á næstu árum og það verði gert með því að sjá svo um að greiðslubyrði lána þeirra á hverjum tíma sé í réttu hlutfalli við tekjur þeirra þannig að ef tekjurnar falla þá lækki greiðslubyrðin. (Forseti hringir.) Svo verður að sjá til þegar við komumst út úr þessum öldudal eftir tvö til þrjú ár og verð á (Forseti hringir.) íbúðarhúsnæði fer að hækka á nýjan leik hvernig staðan verður, virðulegi forseti.