136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Enginn fer í grafgötur um það að ástand efnahagslífsins á Íslandi er grafalvarlegt, fyrir það þrætir enginn. Spurningin er ekki einu sinni hversu alvarlegt, það er svo alvarlegt að þjóðin rambar á barmi gjaldþrots, nú síðast með gjaldþroti Straums.

Í þessari stöðu er tvennt til ráða. Við getum látið allt rúlla og dundað okkur svo við að skoða mál hvers og eins eftir því sem tími vinnst til. Verði sú leið ofan á, eins og stefnir því miður í ef mark má taka á núverandi ríkisstjórn, leiðir það til fjöldagjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga. Það tekur einfaldlega of langan tíma að skoða mál hvers og eins til að þetta sé raunhæfur kostur og þann tíma höfum við ekki. Með því móti erum við í raun að segja fólki að það eigi einfaldlega engan séns. Kostirnir eru tveir, að fara í þrot og segja sig á kerfið eða flýja land.

Hin leiðin er að grípa strax inn í til að leiðrétta stöðu einstaklinga og fyrirtækja svo að sem flestir hafi raunhæfa möguleika á að vinna sig út úr vandanum á eigin spýtur, halda þannig í vonina og sjálfsvirðinguna og trúna á íslenskt samfélag. Framsóknarmenn hafa einmitt lagt fram tillögur þess efnis. Þær tillögur ganga út á flata 20% niðurfærslu á skuldum einstaklinga og fyrirtækja. Í raun má segja að með slíkri niðurfærslu sé verið að færa stöðu lána aftur fyrir hrun. Með því móti er verið að færa stöðu lána aftur í það horf þar sem flestir lántakendur sáu fram á að geta staðið í skilum. Niðurfellingin nemur rétt rúmlega þeim verðbótum sem lagst hafa á innlend lán síðasta árið eða svo og tæplega þeim hækkunum sem hafa orðið á erlendum lánum vegna hruns krónunnar. Með þessu móti er verið að gefa einstaklingum og fyrirtækjum svigrúm til að takast á við eigin vanda á eigin forsendum.

Auðvitað geta margir ekki staðið í skilum þrátt fyrir slíkar aðgerðir en mál þeirra má þá skoða á einstaklingsgrundvelli. Með þessum aðgerðum höfum við tíma til þess. Kostnaðurinn við slíkar aðgerðir verður mikill, því er ekki að neita, en með hörku í samningum við erlenda lánardrottna er ljóst að sá kostnaður þarf ekki að lenda á íslenskum skattgreiðendum nema að litlum hluta. Sá kostnaður verður í öllu falli mun minni en kostnaðurinn við að steypa íslensku þjóðinni í gjaldþrot eins og núverandi stefna gerir ráð fyrir.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að skuldir íslenska þjóðarbúsins verði felldar niður að stórum hluta strax í ár. Hver er sanngirnin í að almenningur eigi að borga hærri skatta, sætta sig við atvinnuleysi, lægri laun og minni velferðarþjónustu en fái enga hlutdeild í niðurfellingu skulda? Hún er nákvæmlega engin.