136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[17:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að taka þessa umræðu hér á dagskrá, það þyrfti hins vegar að gefa henni lengri tíma.

Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í íslensku samfélagi hlýtur maður að efast um að forgangsröðun verkefna hjá minnihlutastjórninni sé rétt. Þau mál sem lúta að framtíðarfyrirkomulagi stjórnsýslunnar, sem að öllum jafnaði tæki langan tíma að ræða, eru sett framar málum sem lúta að því að bjarga fyrirtækjum og atvinnulífi landsins og heimilunum. Fyrir liggur spá Creditinfo um fjöldagjaldþrot fyrirtækja á árinu. Lykilfyrirtæki eru að komast í þrot og má þar nefna Íslenska aðalverktaka og einn banki hefur nú fallið á vakt þessarar ríkisstjórnar eins og fréttir bera með sér. Fyrir liggur að ráðstöfunartekjur heimilanna eru að dragast saman og 16.400 manns eru á skrá yfir atvinnulausa. Er þá ráð að fjölga vinnandi höndum á framfæri skattgreiðenda landsins? Vinnum við okkur út úr vandanum með þeim hætti að skattfé almennings verði varið til þess að planta út skógi og grisja hann um leið, fjölga listamönnum á launaskrá ríkisins og skuldbinda ríkissjóð með þeim hætti að ríkisfyrirtæki veiti veð í væntanlegum fjárframlögum á fjárlögum, samanber yfirlýsingu menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um byggingu tónlistarhúss?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vinnur nú að úttekt á stöðu efnahagsmála og ber stöðuna saman við þau markmið sem sett voru. Ljóst er að ýmsar ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á síðustu vikum samrýmast ekki fjárlögum ársins. Tekjur ríkissjóðs hafa dregist meira saman en gert er ráð fyrir í áætlunum og útgjöld hafa að sama skapi vaxið meira en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir. Upplýst hefur verið í fjölmiðlum að unnið er að sparnaðartillögum innan ráðuneytanna til að mæta þessum frávikum frá efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hver er hin raunverulega staða þjóðarbúsins? Með því á ég annars vegar við ríkissjóð og hins vegar við sveitarfélögin. Ég treysti því að þessar upplýsingar liggi fyrir og verði kynntar þingheimi hið allra fyrsta. Jafnhliða því muni ríkisstjórnin kynna þjóðinni áform sín um með hvaða hætti hún hyggist takast á við þann vanda sem glímt er við í stað þess að halda þinginu uppteknu við að ræða mál sem engu máli skipta fyrir afkomu heimila og fyrirtækja landsins.

Er þá ekki kominn tími til að ríkisstjórnin upplýsi þjóðina um þau úrræði og þær bjargir sem hún hyggst grípa til? Að mínu mati er nauðsynlegt að ríkisstjórnin semji við stjórnarandstöðuna um það með hvaða hætti haga eigi þinghaldi til þess að forgangsverkefnin — úrbætur og aðgerðir á sviði atvinnumála, aðgerðir til bjargar heimilunum og geta ríkissjóðs til að halda uppi því þjóðfélagi sem við viljum öll standa vörð um — fái þann tíma og þann sess sem nauðsynlegt er í sölum Alþingis. Tími er til kominn að þingmenn skilgreini hvaða upplýsingum þörf er á til að Alþingi geti tekið upplýstar ákvarðanir hverju sinni og bregðist um leið við þeirri sjálfsögðu (Forseti hringir.) kröfu að allar upplýsingar í þessum efnum verði aðgengilegar um leið og þær verða til.