136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[17:04]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það eru fimm mánuðir frá því að bankarnir hrundu og ekki hefur enn verið tekið á þeim vanda sem við er að glíma, hvorki varðandi heimilin í landinu né atvinnulífið, atvinnufyrirtækin.

Það er ekkert verið að gera. Það er skelfilegt að fjórflokkurinn sem hefur ráðið, fyrst fyrrverandi ríkisstjórn og svo núverandi ríkisstjórn, með stuðningi Framsóknarflokksins, hefur ekkert verið að gera og það sést enginn munur á því hvort sjálfstæðismenn voru í ríkisstjórn með Samfylkingu eða hvort Vinstri grænir eru með Samfylkingu. Við horfum upp á það að ekkert er að gerast, tíminn líður og fyrirtækin fara í þrot og heimilin líka.

Það er aldrei talað um það sem skiptir máli, það sem hægt væri að gera. Við í Frjálslynda flokknum höfum margbent á að það er hægt að auka veiðar, það er hægt að veiða meiri fisk úr sjónum. Sennilega er hægt að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 80–90 milljarða án þess að stofna lífríkinu í hættu. Við höfum þann möguleika, og verðum að nýta hann í þessari stöðu, að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið frá grunni, kalla inn allar veiðiheimildir og fara að leigja þær út. Ef við værum að leigja þessi 400 þús. þorskígildistonn sem við erum að veiða í dag á 50 kr. kílóið væru það 20 milljarðar í þjóðarbúið, til ríkissjóðs, og það munar um minna.

Það er líka sorglegt til þess að vita að hér leyfa ráðherrar sér það og ríkisstjórnin að ætla að setja 14–20 milljarða í svokallað tónlistarhús. Ég sé ekki hvaða gjaldeyristekjur við höfum af því, örfá störf, en ekkert nema kostnað þegar húsið verður klárað. Það er fáránlegur gjörningur við þær aðstæður sem við búum við núna að eyða þessum peningum í þetta.

Auðvitað þurfa ríkisstjórnir framtíðarinnar, og sérstaklega sú ríkisstjórn sem tekur við í vor, að reyna að semja sig frá þessum Icesave-reikningum og öðrum skuldum sem eru fallnar á þjóðina, það liggur í augum uppi að það verður að gera. En ég dreg stórlega í efa að sá ráðgjafi sem fenginn var, Mats Josefsson, sé rétti maðurinn til þess að standa að því að endurreisa bankakerfið á Íslandi. Ég dreg í efa þekkingu hans á íslenskum staðháttum, íslensku atvinnulífi og skuldum sjávarútvegsins, veðum sem eru á bak við skuldir í sjávarútvegi.

Ég vil að lokum segja: Fjórflokkurinn hefur brugðist. Flokkar eiga að vera fyrir fólk en ekki öfugt.