136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umr. en stuttu áður hafði nefndin fengið Völu Rebekku Þorsteinsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Tómas Möller og Gunnar Baldursson frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Guðjón Rúnarsson og Marinó Tryggvason frá Samtökum fjármálafyrirtækja á sinn fund til að ræða breytingartillögu minni hluta efnahags- og skattanefndar.

Meiri hlutinn telur brýnt að frumvarpið verði samþykkt með áorðnum breytingum sem hann lagði til við 2. umr. málsins. Meiri hlutinn telur það jafnframt koma til greina að endurskoða fyrirkomulag útgreiðslu að fenginni reynslu og með hliðsjón af öðrum úrræðum til lausnar greiðsluvanda einstaklinga og heimila. Mælist nefndin til þess að fjármálaráðuneytið skoði breytingartillögu minni hlutans í þessu ljósi og meti þörfina á frekari úrræðum á síðari stigum, jafnvel strax á sumarþingi eftir kosningar í vor.

Mikilvægt er að þessar breytingar gangi fram þannig að þeir sem eru í brýnni þörf fyrir aukna fjármuni til að mæta skuldbindingum sínum geti nálgast þessa eign sína í sjóðunum, en eins og flestir vita er gert ráð fyrir að einstaklingar geti tekið út af séreignarsparnaði sínum allt að 1 millj. kr. sem greiðist út á níu mánuðum. Margar aðrar og málefnalegar leiðir komu til greina og voru ræddar í nefndinni af hv. þingmönnum Pétri Blöndal, Gunnari Svavarssyni og mörgum fleirum. Mikið var til í þeim öllum og leggjum við til, eins og hér sagði áður, að það verði metið fljótlega þegar fram eru komin öll úrræði til lausnar á greiðsluvanda einstaklinga og heimila, hvort gera þurfi eitthvað frekar, t.d. að gefa fólki kost á að skuldajafna með einhverjum hætti á móti séreign sinni með skuldum sínum. En það verður rætt frekar síðar þegar tóm gefst til.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Bjarni Benediktsson og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir álitið rita sá sem hér stendur, formaður og framsögumaður, Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson, Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason og Birkir J. Jónsson.