136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo, til að því rétta sé til haga haldið, að það voru mjög skiptar skoðanir á meðal fulltrúa lífeyrissjóðanna um þá leið sem hv. þm. Ásta Möller nefndi. Þær voru mjög skiptar og fjarri því að samhljómur eða samstaða væri um þær meðal þeirra allra. Lífeyrissjóðirnir höfðu mikinn fyrirvara almennt við að hreyfa við þessum hlutum og það má alveg deila um það. Þetta er bara ein leið af fjöldamörgum til að bæta stöðu fólks og engin meginleið og það má alveg deila um hvort það sé almennt rétt að opna á þetta með þessum hætti.

Það var samt nokkuð almennur og ríkur vilji til þess í þinginu að gefa fólk kost á að nálgast lítinn hluta af séreignarsparnaði sínum með þessum hætti. Margir einstaklingar hafa haft samband við okkur mörg um það og bent á að bara það að geta nálgast þennan hluta hjálpi þeim að mæta tímabundnum erfiðleikum. Það er erfitt að færa rök fyrir því að fólk sem á slíka eign geti ekki gengið að einhverju leyti að henni þegar í harðbakkann slær hjá því og árferðið er eins og það er núna.

Varðandi það sem ég nefndi áðan um aðrar leiðir, skuldajafnanir og fleira, þá taldi nefndin enga ástæðu til að útiloka slíkt og sjálfsagt að skoða það áfram um leið og einhver reynsla kemst á þessa framkvæmd en hún var ekki tilbúin til þess núna. Við hefðum þurft lengri tíma til að fara ítarlegar í gegnum það mál áður en við tækjum ákvörðun um að fara aðrar leiðir í því. Það má fagna því í sjálfu sér að þessi leið sé samþykkt núna og svo verði það skoðað áfram hvort rétt sé að gefa fólki frekari aðgöngu að þessari eign sinni og þá hugsanlega með einhvers konar skuldajöfnun. Ég held að við getum öll verið sæmilega sátt við að það verði skoðað strax í framhaldinu.