136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:21]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var á þessum fundi sem hv. þingmaður var reyndar ekki á af ástæðum sem ég þekki ekki, enda kom ég þarna rétt aðeins í lokin. Má því kannski segja að ég hafi ekki heildarmyndina af málinu þannig séð nema hvað ég hlustaði á fulltrúa stjórna lífeyrissjóðanna sem sögðu, aðspurðir, að tillaga hv. þm. Péturs Blöndal mundi vera mun heppilegri, bæði fyrir almenning í landinu og jafnframt fyrir lífeyrissjóðina vegna þess að þá stæðu þeir ekki frammi fyrir því að þurfa að leysa út bréf sem væru auðleysanleg til að borga þetta út heldur væru þeir með skuldabréf í höndunum sem væri til þess fallið að ekki yrði flutningur á fjármagni frá lífeyrissjóðunum og út í bæ með þeim hætti sem frumvarpið leggur til.

Það segir sig líka sjálft að tillagan sem hv. meiri hluti leggur til og reyndar ríkisstjórnin sjálf þar sem miðað er við að einstaklingar geti leyst út 1 milljón á tíu mánuðum, sem þýðir 63 þús. kr. eftir skatta í hverjum mánuði og sú upphæð ein og sér leysir engan vanda, leysir ekki greiðsluerfiðleika fólks. Ef á hinn bóginn væri farin sú leið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leggur til fengi fólk í hendurnar 630 þús. í einni upphæð, ég tala nú ekki um ef um hjón væri að ræða og þau ættu séreignarlífeyrissparnað sem því næmi, þá væru komnar a.m.k. 1,3 millj. kr. sem þau gætu haft milli handa til að mæta þeim erfiðleikum sem allt of mörg heimili standa frammi fyrir núna. Ég verð því að segja að mér þykir miður að þessari tillögu skyldi vera hafnað og sé ekki ástæðuna fyrir því.