136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:48]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að 3. umr. er ekki höfð í miklum hávegum hjá hv. þingmönnum stjórnarminnihlutans þessa dagana. Samt lagði ég á föstudaginn fram breytingartillögu, ásamt hv. þm. Gunnari Svavarssyni, sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum við 3. umr. um virðisaukaskattsfrumvarpið, sem studd var af stjórnarandstöðunni í atkvæðagreiðslu. Þetta var við 3. umr. Ég held að þetta dæmi eitt og sér sýni okkur að 3. umr. skiptir líka máli. Hún er til þess að þingið fái enn eitt tækifæri til að fara yfir málið og sjá hvort hægt sé að bæta úr og breyta og laga það þannig að það verði betra og fari betur á því en við 1. umr. og 2. umr. Eins og ég nefndi áðan var þessi breytingartillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, bæði stjórnarminnihlutans og stjórnarandstöðunnar.

Það er vissulega svo — og þess vegna er rangt ef því er haldið fram að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins reyni að tefja þetta mál — að hér er um mjög brýnt mál að ræða. Þetta var reyndar eitt af þeim málum sem var talsvert til umræðu um mánaðamótin janúar/febrúar þegar stjórnarskiptin urðu og hv. þingmenn Samfylkingarinnar nefndu það sérstaklega til sögunnar ásamt greiðsluaðlögunarmálinu sem dæmi um hversu erfiðlega hefði gengið að taka ákvarðanir um að koma málum fram í tíð fyrri ríkisstjórnar. Nú er það svo að greiðsluaðlögunarmálið er rúmum mánuði síðar ekki komið úr nefnd til afgreiðslu hjá þinginu og þetta mál er nú statt í 3. umr.

Hins vegar lögðum við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fyrstu viku febrúar fram frumvörp um bæði þessi mál og þau eru enn í nefnd. Um það bil hálfum mánuði síðar kom ríkisstjórnin hins vegar með frumvörp sín um sama efni sem nú er unnið að í nefndum eða eru komin til umræðu. Það er eiginlega skrýtið miðað við hvað hér er um brýn mál að ræða — eða alla vega töldu hv. þingmenn Samfylkingarinnar að um brýn mál væri að ræða þegar stjórnarskiptin urðu um mánaðamótin janúar/febrúar — að þau skuli ekki vera komin lengra en raun ber vitni. Það er örugglega ekki hægt að kenna hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um það jafnvel þótt þeir leyfi sér að ræða málin og koma með tillögur til breytinga á málum við 3. umr.

Kannski er sérstaklega ástæða til að koma með breytingartillögur við þetta mál við 3. umr. vegna þess að frumvarp ríkisstjórnarinnar olli miklum vonbrigðum hjá þeim sem höfðu talið að þar væri von til að þeir gætu bætt stöðu sína og greitt úr einhverjum þeim vandamálum sem þeir væru komnir í vegna skulda. En niðurstaða flestra þeirra er sú að frumvarpið sem hér er lagt til að verði afgreitt við 3. umr. mun skipta litlu máli. Það mun auðvitað skipta einhverju máli en það mun skipta miklu minna máli en fólk hafði almennt vonast til og ég held að hafi verið ástæða til að vonast til. Og það sem meira er, í þessu máli eru líka atriði sem verða til þess að það muni leiða til meiri innlausnar og þá á öðrum forsendum en vegna skuldavandans. Auðvitað geta menn verið í vanda af öðrum ástæðum en vegna skulda en það getur líka leitt til þess að það verði hvati fyrir þá sem ekki eru í neinum vanda að leysa þessa fjármuni inn, kannski ekki endilega til að eyða þeim, þótt vissulega væri hugsanlegt að það gerðist, en einnig til að ráðstafa þeim á annan hátt vegna þess að upp er komin ákveðin vantrú á séreignarsparnaðinum og hvernig hefur gengið að ávaxta hann og að vissu leyti virðist umræðan síðustu dagana vera mjög neikvæð gagnvart lífeyrissjóðunum þó að ég vilji alls ekki gerast málsvari þess að við treystum ekki lífeyrissjóðunum eða gera lítið úr hlutverki þeirra eða starfi.

Vissulega, frú forseti, er ákveðinn vandi fólginn í þessu máli. Hann er fyrst og fremst í tveimur atriðum, í lausafjárerfiðleikum sem minni lífeyrissjóðirnir gætu lent í vegna innlausnar og eins vegna tvenns konar ójafnræðis sem upp gæti komið. Annars vegar þess að ef leysa þyrfti upp sjóðina, gæti verið ójafnræði á milli þeirra sem ekki innleystu og þeirra sem innleystu og eins vegna þess að ef horft er til hugmynda okkar sjálfstæðismanna hefðu þeir sem væru skuldugir rétt til að innleysa en aðrir ekki og það væri þá vegna þess að þeir skuldugu væru jafnframt taldir í vanda en ekki hinir.

Ég hefði talið eðlilegt að í starfi þingsins hefðu menn einbeitt sér að því að reyna að leysa úr þessum vandkvæðum sem ég fór yfir og finna lausnir á þeim til að þessi aðgerð skipti meira máli en raun virðist ætla að vera og til að þau vonbrigði sem ég nefndi áðan hefðu ekki komið upp. En það var ekki gert og auðvitað eru mikil vonbrigði fólgin í því. Nefndin fjallaði ekki um þetta á þessum forsendum og var ekki að leita leiða til að leysa úr þeim vanda sem hér um ræðir.

Vissulega fjallaði nefndin um það að tilgangur frumvarpsins væri að reyna að bæta úr bágri fjárhagsstöðu margra einstaklinga og heimila en nefndin fjallaði einnig um það að geta lífeyrissjóðanna til að standa undir útgreiðslum gæti verið takmörkuð. Hún fjallaði líka um það hversu margir rétthafar væru líklegir til að nýta heimildina, sem auðvitað er þá í samhengi við getu lífeyrissjóðanna, og síðan áfram um áhrif á stöðu vörsluaðila, þ.e. um stöðu lífeyrissjóðanna og þá rétthafa sem ekki kjósa að taka út séreignarsparnað sinn. En engar lausnir á þessum vanda var að finna í nefndarstarfinu. Það er einungis sagt að um það hafi verið fjallað og í breytingartillögunum sem samþykktar voru, þótt þær hafi verið til bóta, var ekki um neinar sérstakar lausnir á efnisatriðunum að ræða. Þess í stað var rætt um hvort þyrfti að binda heimildina til innlausnar frekari skilyrðum til að tryggja raunverulegan ávinning fyrir rétthafa, frekari skilyrðum en voru í frumvarpinu. Og um þann þátt sem ójafnræði leiðir af sér, vegna þess að ef sú leið væri farin að takmarka þetta við útgreiðslu til þeirra sem væru skuldugir gætu einungis þeir sem ættu fasteignaveðlán nýtt sér innlausnina. Ekki var fjallað um hvort hægt væri að finna einhverjar leiðir til að greiða út til þeirra sem væru með annars konar skuldir en vegna húsnæðiskaupa og aðgreina þá þannig frá þeim sem ekki væru í neinum vanda. Ekki var fjallað um það, heldur hafði nefndin mestar áhyggjur af því að menn gætu svindlað á þessu, tekið út meira en þeir ættu rétt á og til þess þyrfti miðlægt eftirlit. Síðan var fjallað um sérstaka þóknun fyrir umsýslu, það verkefni að leysa þetta út, og út af fyrir sig má segja að það hafi ekki verið ósanngjarnt því ekki er hægt að ætla öðrum en þeim sem eiga að njóta að bera kostnað af því að leysa þetta út og síðan var fjallað á ýmsan hátt um það hvort þetta gæti skert tilkall til ýmiss konar réttinda.

Hins vegar virtust flestir sem komu á fund nefndarinnar, sem í meginatriðum voru fulltrúar lífeyrissjóðanna, fjármálakerfisins, tryggingafyrirtækjanna og atvinnulífsins, telja að þetta væri allt saman til bóta þó að búið væri að takmarka upphæðina við eina milljón. Ýmsar vangaveltur voru uppi um tekjuskerðingu vegna atvinnumissis og hvernig ætti að ráðstafa greiðslum til fasteignaveðlána eins og hugmyndir hafa verið uppi um en engar frekari hugmyndir um hvernig væri hægt að nálgast þetta til að þeir sem væru í vanda gætu fengið meira greitt út en þá einu milljón sem virðist hafa verið hugmynd frá Fjármálaeftirlitinu. Ekki er gerð nein grein fyrir því í nefndarálitinu hvers vegna þetta ætti að vera ein milljón en ekki eitthvað annað. Ekkert er fjallað um það hvernig leysa megi úr þeim vanda sem upp kynni að koma hjá lífeyrissjóðum sem þyrftu að greiða út vegna innlausnar, annars vegar vegna lausafjárstöðu og hins vegar vegna ójafnræðis.

Út af fyrir sig er kannski ekki mjög auðvelt að leysa úr því vegna lausafjárstöðunnar en þó á það að vera mögulegt. Annars vegar með því að fresta og dreifa greiðslunum, eins og var í frumvarpinu, en hins vegar með því að breytingar verði gerðar á sjóðunum og þeir sjóðir sem væru minni hefðu samstarf um það við þá stærri. Auðvitað má þá annars vegar velta fyrir sér hvort minni sjóðir sem ekki ráða við þetta á þessu stigi eigi mikla möguleika á að standa í þessari starfsemi í framtíðinni og hvort ekki væri þá ráð að reyna að styrkja þá með einhvers konar samstarfi við hina sem stærri eru. Og hins vegar því ef ójafnræði kæmi upp vegna þess að lífeyrissjóðirnir gætu ekki tryggt að þeir sem ekki fengju greitt út eða ekki hefðu rétt til innlausnar nytu jafnræðis við aðra vegna þess hvaða verð fengist fyrir pappírinn sem seldur væri vegna innleysingar. En tiltölulega auðvelt ætti að vera að leysa það með því að leysa sjóðina upp og endurfjárfesta fyrir þá sem ekki innleystu, svo þeir fengju þá sama verð fyrir bréfin og þeir sem fengju innlausnina greidda út en fjárfestu á sama verði. Ekki er hægt að draga þetta saman á annan hátt en að þetta hafi valdið miklum vonbrigðum. Ekki var verið að leita lausna á vandamálunum sem fólust í þessu heldur einblínt á það að keyra frumvarp ríkisstjórnarinnar í gegn, frumvarp sem kom fram seint og um síðir miðað við það sem verið hafði í umræðunni áður og óskiljanlegt að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar skuli hafa sætt sig við þessa niðurstöðu.