136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er komið að 3. umr. þessa mikilvæga máls. Ég tel að það sé afar brýnt fyrir okkur á þinginu að afgreiða mál eins og þetta og fleiri sem eru til þess falin að létta undir vegna þröngrar stöðu heimilanna í landinu.

Tilfellið er að séreignarsparnaðurinn getur reynst heimilum sem ratað hafa í greiðsluerfiðleika við þessar óvæntu aðstæður afar mikilvæg hjálparhella. Og ég held að sú nálgun sem frumvarpið gengur út á sé ágætlega til þess fallin að koma til móts við áhyggjur þeirra sem bent hafa á mikilvægi þess að lífeyrissjóðirnir sjálfir lendi ekki í vanda við þessa fyrirgreiðslu.

Ég þakka hv. þm. Árna M. Mathiesen fyrir ræðu hans sem veitti okkur ágætisyfirlit yfir þróun málsins frá því hann var fjármálaráðherra og var með sama mál til umfjöllunar. Við ræðum nú við 3. umr. m.a. um tillögu frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem gengur út á að auk þess sem séreignarsparnaðareigendur geti tekið út sparnað sinn með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. um það bil eina milljón sem síðan skattleggst, og tekið þá fjárhæð út í áföngum, eigi séreignarsparnaðareigendur þess kost að nýta eign sína, séu þeir um það bil að verða gjaldþrota til þess að greiða upp skuldir. Ég held að það sé ágætistillaga hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal en ég er þó ekki tilbúinn að taka endanlega afstöðu til hennar hér. Ég þarf að hlýða á framsögu hans og frekari skýringar.

Ég hef í fyrsta lagi áhyggjur af því hvaða áhrif tillaga af þessum toga mundi hafa á lífeyrissjóðina og hvaða þrýsting hún kynni að setja á útgreiðslur þaðan. Eins finnst mér skilyrðið um að útgreiðsla sé heimil þegar líklegt er að hún komi í veg fyrir gjaldþrot rétthafans, vafasamt. Þarna þarf mjög að vanda til skilyrðanna. Það má ekki vera neinum vafa undirorpið nákvæmlega í hvaða tilvikum viðkomandi umsækjandi á rétt á að sækja slíka greiðslu og er gert ráð fyrir því að fyrir þurfi að liggja vottorð frá sérfræðingi. Það er dálítið óhefðbundið orðalag í lögum. Ég tek þó fram að hv. þingmaður gerir ráð fyrir því í breytingartillögu sinni að ráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um fyrirkomulag þessarar tímabundnu útgreiðslu. Þar mætti koma til móts við þetta.

Að öðru leyti vil ég segja um málið að ég hef haft áhyggjur alveg frá upphafi af því að með því að opna fyrir útgreiðslu séreignarsparnaðarins gæti komið til þess að ýmsir sem í sjálfu sér þyrftu ekki á útgreiðslunni að halda mundu engu að síður sækja séreignarsparnað sinn vegna þess að þeir óttast að sá sjóður sem eftir situr eftir útgreiðsluna verði ekki jafn traustur og góður eins og hann var fyrir útgreiðsluna. Ástæðan er sú að það er auðvitað það lausafé sem liggur fyrir í sjóðnum sem fyrst er greitt út og síðan auðseljanlegar eignir. Eftir sitja þá eftir atvikum aðrar eignir sem ekki eru eins auðseljanlegar og er um þessar mundir jafnvel dálítið erfitt að verðmeta. Menn hljóta að spyrja sig, sem eru aðilar að slíkum sjóði jafnvel þótt þeir hafi ekki ríka þörf fyrir að komast yfir þetta ráðstöfunarfé, hvort það kunni engu að síður vera skynsamlegt að reyna að nálgast það einungis til þess að forðast mögulegt tjón sem af því getur hlotist að láta eignina sitja áfram inni.

Það hefur aðeins verið rætt í störfum nefndarinnar en ég held að það sé vandi sem erfitt er að komast fyrir. Staðan er einfaldlega sú að það þarf að taka afstöðu til þess hvort ekki sé eðlilegt vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna sem uppi eru að gera þennan sparnað aðgengilegan fyrir heimilin.

Margir hafa nefnt í umræðunni, m.a. hv. þm. Pétur H. Blöndal, að hættan sé sú að einstaklingar muni nýta sparnaðinn til annars en að greiða upp skuldir. Ég held að það sé erfitt fyrir ríkisvaldið að setja því of þröngar skorður eða of stíf skilyrði í hvaða tilgangi þessar fjárhæðir, sem eru þó ekki hærri en frumvarpið gerir ráð fyrir, eru leystar út vegna þess að vandi heimilanna í landinu er margvíslegur. Sumir eru komnir í erfiðleika með að standa í skilum með húsnæðislán sín vegna þess að þau hafa hækkað út af verðbólgu. Aðrir eru í tímabundnum þrengingum vegna þess að þeir eru atvinnulausir, þeir munu þess vegna geta nýtt sér þetta. Einhverjir munu vilja leysa út séreignarsparnað sinn einfaldlega til þess að greiða upp skuldir. Ég held að það væri skynsamlegt í mörgum tilvikum vegna þess hversu mörg lán eru dýr um þessar mundir, sérstaklega má þar nefna yfirdráttarlánin. Í öðrum tilvikum eru menn einfaldlega með einhver önnur lán eða aðra greiðslubyrði á heimilinu sem er þeim ofviða og er ekkert við því að segja í sjálfu sér að menn vilji nýta séreignarsparnað sinn til þess að létta undir vegna þess.

Þess vegna er að mínu áliti vel hægt að hugsa sér að heimila útgreiðslu séreignarsparnaðar þó að ekki séu sett ströng skilyrði um að allur sparnaðurinn fari til niðurgreiðslu á lánum. Hins vegar hefði verið nauðsynlegt að gera það ef við hefðum miðað við hærri fjárhæð, t.d. ef við hefðum miðað við að taka mætti út allan séreignarsparnaðinn. En frumvarpið, eins og það liggur fyrir þinginu, gerir ráð fyrir mun lægri fjárhæð.

Ég leyfi mér að vísa til þess sem fram kom í máli hv. þm. Árna M. Mathiesens áðan að að þessu leyti gengur frumvarpið ekki eins langt eins og þær hugmyndir sem voru í burðarliðnum í fjármálaráðuneytinu þegar hann var þar sem ráðherra. Þar var gengið út frá því að menn gætu sótt allan sparnað sinn en skilyrt um leið að menn ráðstöfuðu andvirðinu til uppgreiðslu skulda. Þá var fyrst og fremst verið að horfa á húsnæðisskuldir. Það var af þeirri ástæðu sem gert var ráð fyrir milligönguhlutverki bankanna þannig að tryggt væri að andvirði sparnaðarins rynni raunverulega til uppgreiðslu slíkra skulda.

Finna má vísi að sömu hugsun í breytingartillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég verð að segja að jafnvel þótt hér séu önnur mál á dagskrá er ég dálítið hissa á því að við skulum ekki nokkur geta tekið til máls við 3. umr. og rætt meðferð málsins í heild sinni á þinginu og þá breytingartillögu sem sett er fram án þess að færðar séu fram athugasemdir við það af hálfu varaformanns nefndarinnar og látið að því liggja að við þingmenn séum með einhver annarleg sjónarmið í umræðunni.

Þetta er eitt af þeim málum sem við teljum brýnt að verði afgreidd á þinginu. Þetta er meðal þeirra mála sem mikilvægt er að klárist ásamt öðrum sem varða beint hag heimilanna og við höfum mikið rætt mál sem snerta atvinnustarfsemina í landinu. Þar eru þó stóru verkin sem telja mest, lækkun vaxta sem við erum loksins farin að eygja að geti átt sér stað miðað við þau orð sem féllu fyrr í dag í tengslum við efnahagsumræðuna, og endurreisn bankakerfisins sem getur tryggt nægilegt súrefni fyrir atvinnulífið, jafnmikilvægt og það er.

Þetta er ágætismál. Mér finnst sjálfsagt að ræða um breytingartillögu hv. þingmanns. Málið fór jú á milli 2. og 3. umr. til nefndarinnar til frekari skoðunar þannig að það er eðlilegt að menn taki til máls og fjalli um málið í heild sinni. Ég tel að þetta muni gagnast heimilunum og það verður vafalaust mikið um að þeir sem eiga séreignarsparnað muni nýta sér þennan möguleika til þess að létta undir við þær aðstæður sem nú hafa skapast.