136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú getur vel verið að það þyrfti jafnvel 4. umr. um þetta mál til að öll kurl kæmu hér til grafar miðað við þann málflutning sem hér er hafður uppi. Mér fannst hv. þm. Bjarni Benediktsson taka undir það að hér væri um mikilvægt mál að ræða sem gæti gagnast heimilum. Hann færði m.a. rök fyrir því að sú leið sem stjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. að það væri ekki bundið að útgreiðsla séreignarsparnaðar færi til uppgreiðslu skulda, gæti nýst ákveðnum heimilum, ekki síst fólki sem á ekki eigið húsnæði og býr t.d. í leiguhúsnæði og er ekki með þessar skuldbindingar þannig að það gæti notað þetta fé til annarra þarfa. Mér fannst hv. þingmaður hafa skilning á því. Síðan hafði hann þau orð uppi eða orðaði það á þann hátt að sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Pétri H. Blöndal gæti komið til viðbótar við þá leið sem farin er í frumvarpinu.

Staðreyndin er sú að breytingartillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals gengur út á það að lausnin sem hann leggur hér til komi í staðinn fyrir ákvæði 3. gr. frumvarpsins eins og það var samþykkt við 2. umr., m.a. með atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins annarra en Péturs H. Blöndals sem sat hjá við afgreiðslu málsins. Ég fæ því ekki betur séð ef breytingartillaga minni hlutans yrði samþykkt að þá yrði hin leiðin tekin út og þá er ekki um að ræða lausn til viðbótar því sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þess vegna er framhaldsnefndarálitið frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar með þeim hætti sem það er. Þar er beinlínis gert ráð fyrir því og mælst til þess að fjármálaráðuneytið skoði frekari útfærslu, m.a. með hliðsjón af þessari breytingartillögu og með hliðsjón af öðrum ráðstöfunum sem verið er að gera, þannig að þetta geti hugsanlega komið sem viðbót á síðari stigum ef nauðsynlegt reynist. En það gengur ekki að mínu mati að samþykkja þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir (Forseti hringir.) því að hún á að koma í staðinn fyrir þá leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir sem mér hefur virst vera þokkaleg samstaða um.