136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:46]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og útskýringar hans á leið sem hann hefur mælt hér fyrir. Það kom fram í máli hv. þingmanns að umsagnaraðilar settu ákveðinn vara á við útfærslu ríkisstjórnarinnar sem varð þá til þess að hv. þingmaður fór m.a. að vinna nánar í hugmynd sinni. Eins og komið hefur fram sat ég fundinn þar sem hugmynd hv. þingmanns var til umræðu og þangað komu fulltrúar lífeyrissjóðanna til að veita umsögn um hugmynd hans. Þeir tóku mjög vel í hugmyndina og sögðu reyndar á fundinum að þeir teldu útfærslu hugmyndar hv. þm. Péturs H. Blöndals mun betri en hugmyndir ríkisstjórnarinnar sem varð til þess að nefndin skoðaði þetta nánar á milli 2. og 3. umr. en síðan komst meiri hluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að fara ekki þá leið. Ég spurði hv. þm. Björgvin Sigurðsson, formann nefndarinnar, hvað hefði orðið til þess að þeir komust að þeirri niðurstöðu eða skoðuðu tillögu hv. þingmanns ekki nánar og breyttu niðurstöðu sinni. Eins og hv. þingmaður hefur lýst er þetta leið sem gagnast öllum, bæði lífeyrissjóðunum og þeim sem eiga lífeyrissparnaðinn.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans, að nefndin mælist til þess að fjármálaráðuneytið skoði breytingartillögur minni hlutans í því ljósi að þær geti leyst greiðsluvanda einstaklinga og metið þörfina á frekari úrræðum á síðari stigum, þ.e. að nefndin leggur til að útfærsla ríkisstjórnarinnar gangi í gildi en hugmynd hv. þingmanns muni síðar koma til skoðunar. (Forseti hringir.) Hvað mundi það þýða fyrir allt kerfið ef ein útfærsla tekur gildi og svo komi önnur síðar?