136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[20:45]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað upp og veiti andsvar til að árétta það sem fram kom í máli hv. þingmanns um þá fjárhæð sem kann að vera í húfi. Hv. þingmaður nefndi 100–120 milljarða kr. Hv. þingmaður bendir á að þetta séu upplýsingar sem hún byggir á þegar hún horfir á þá sem eiga í séreignarsjóðunum og ef hver og einn tæki út 1 milljón kr. ef svo bæri undir.

Ég nefni þetta af því að ég vitnaði í ræðu minni í frásögn af blaðamannafundi sem var haldinn 17. febrúar þar sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra gerðu grein fyrir frumvarpinu. Þá kom fram, eins og ég sagði í ræðu minni, að talið var að tækju allir út úr sjóðunum gæti fjárhæðin numið 80–90 milljörðum kr. Þarna getur munað allt að 40 milljörðum á þeim tölum sem hv. þingmaður nefndi, sem ég tel að séu þá tölur sem hafi komið fram í þingmeðferðinni og menn hafi glöggvað sig betur á en því sem lá fyrir þegar hæstv. ráðherrar kynntu frumvarpið.

Ég vildi því spyrja hv. þingmann og fá það alveg skýrt að sú tala sem hún nefnir, 100, 120 milljarðar kr. er tala sem liggur fyrir eftir að menn fóru í gegnum þetta í þinginu og þannig hefur þetta hækkað svona mikið frá því að hæstv. ráðherra kynnti þetta þótt ekki sé lengra liðið en frá 17. febrúar sem það var gert.