136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[20:47]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Bjarnasyni fyrir spurninguna og vil láta þess getið að ég er ekki nefndarmaður í efnahags- og skattanefnd. Hins vegar kynnti ég mér það með samtali við ágætan kollega, Pétur H. Blöndal, og spurði hann einmitt um það hvort komið hefði fram einhver heildarupphæð í meðförum nefndarinnar á málinu. Hann staðfesti við mig að lífeyrissjóðirnir nefndu 100 milljarða sem gæti verið líkleg upphæð.

Mig langar aðeins að segja þingheimi hvernig ég fékk 120 milljarðana. Það var ekki flóknara en svo að áætlað er, og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að 120 þúsund einstaklingar eigi séreignarsparnað og mjög sennilegt er að einhverjir þeirra eigi ekki heila milljón. Þar með hef ég leyft mér að segja að það hlýtur að vera þá einhvers staðar á milli 100 milljarða sem lífeyrissjóðirnir nefna og svo þessa hámarks, 120 milljarðar, ef allir 120 þúsund eigendur lífeyris séreignarsparnaðar tækju nú út eða ættu milljón kr. En ég held að talan 100 milljarðar sé nokkuð nærri lagi.