136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[20:53]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Gildandi reglur varðandi lífeyrissjóði eru þær að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs er 12% af iðgjaldsstofni. Það er iðgjald af öllum launamönnum og sjálfstæðum atvinnurekendum og er þeim skylt að greiða það frá sextán ára til sjötíu ára aldurs. Því til viðbótar er heimilt að greiða allt að 4% af heildarlaunum sem iðgjald í séreignarsjóði, viðbótariðgjald, ef einstaklingar kjósa það og eiga alla jafnan kost á mótframlagi frá launagreiðanda sem getur numið allt að 2% til viðbótar.

Við erum að tala um þvingaðan sparnað upp á 12% af launum hvers einasta launamanns frá sextán ára aldri til sjötugs. Þar til viðbótar koma síðan 4% + 2%, iðulega 6%, sem viðbótarlífeyrissparnaður eða séreignarsparnaður þannig að það eru því allt að 18% sem fara af heildarlaunagreiðslum viðkomandi aðila í slíkan sparnað.

Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða og er með nokkrum ólíkindum að skoða hvers konar stærðir um er að ræða í þvinguðum sparnaði og þeim hálffrjálsa sparnaði sem séreignarlífeyririnn er. Það eru ekki nema um 80 ár síðan að ekkert ríki í veröldinni, alveg óháð því hvort það voru lýðræðisríki eða einræðisríki, taldi sér fært að skattleggja borgara sína meira en sem næmi 5–6% af þjóðarframleiðslu.

Staðan í dag er sú að skattheimtan, þ.e. það sem hið opinbera tekur, nemur að allt að 50%. Þar til viðbótar kemur svo hinn þvingaði sparnaður. Þegar það er skoðað liggur fyrir að meiri hluti tekna hvers einasta borgara er með einum eða öðrum hætti tekinn til hins opinbera og í hinn þvingaða sparnað. Hér er forræðishyggjan að mínu viti komin allt of langt.

Í grein sem sá þekkti fræðimaður Peter F. Drucker skrifaði á sínum tíma um endalok markaðssamfélagsins, vísar hann til þess hvernig fjárlagagerð og þvingaður sparnaður hafi aukist ár frá ári, allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldar og til okkar tíma þar sem stjórnmálamennirnir sem hafa með slíkt að gera, hafa brugðist skyldum sínum. Þeir hafi í raun farið að gera allt fyrir alla á þeirra eigin kostnað og sérhagsmunaaðilarnir hafi endalaust getað gengið fram þannig að stjórnmálamennirnir hafi lotið — og lúti — vilja þeirra á kostnað heildarinnar.

Það er með ólíkindum að sjá hvernig ríkið hefur vaxið endalaust, hvernig það verður sífellt stærri hluti af þjóðarkökunni sem tekinn er af einstaklingnum, af hinum venjulega launamanni, til þess að fylla upp í eitthvað sem eru kölluð nauðsynleg útgjöld í þágu samfélagslegra atriða.

Satt best að segja hefur mér um langa hríð fundist að við værum komin út yfir öll eðlileg mörk með hinn þvingaða lífeyrissparnað, að vera komin með lífeyrissparnað upp í 12% af tekjum fólksins í landinu. Ég hefði talað eðlilegra að lífeyrissparnaðurinn væri lægri. Og nú þegar við ræðum um frumvarp þar sem er spurningin er hvort einstaklingarnir megi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ráðstafa litlum hluta af eignum sínum í séreignarsjóðnum, erum við þá ekki komin út yfir öll eðlileg mörk varðandi að hindra borgarana í því að nýta fjármuni sína þegar þeir þurfa virkilega á þeim að halda?

Ég hygg að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem svo er ástatt, að menn geti átt það á hættu að húsið þeirra sé selt á nauðungaruppboði til þess eins að þeim gæti hugsanlega liðið betur í ellinni, ef þeir verða svo gamlir að njóta þess. Það er forræðishyggja sem ég get ekki samþykkt að eigi nokkurn rétt á sér.

Þarna geta einstaklingarnir tekið út lífeyrissparnaðinn sinn að litlu leyti til þess að borga vegna vandamála sem þeir lenda í vegna þeirra aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst of skammt gengið þarna og settar of miklar tálmanir hvað þetta varðar.

Hv. þm. Guðfinna S. Bjarnadóttir sagði áðan að lífeyrissparnaðurinn væri fjöreggið okkar og þess yrðum við að gæta. Ekki skal dregið úr því að um mikilvægan sparnað er að ræða. Gríðarlegum fjármunum hefur verið safnað upp vegna þessa þvingaða sparnaðar. En það eru komnir margir og alvarlegir brestir í skurnina á fjöregginu ef það er ekki þegar brotið að hluta. Vegna hvers? Vegna þess að þrátt fyrir það að ríkisvaldið skyldi einstaklingana til þess að leggja peningana sína í ákveðna sjóði er eftirlit með rekstri sjóðanna afar takmarkað. Það liggur fyrir að kostnaður við rekstur lífeyrissjóða er gjörsamlega óásættanlegur. Hann er allt of mikill. Allt of mikið fer í kostnað við að standa í innheimtu, eftirliti og umsjón sem því fylgir.

Ég vék að því þessi þvingaði sparnaður nemur í dag hlutfallslega helmingi hærri fjárhæð fyrir tekjur einstaklinga en nokkur ríkisstjórn í veröldinni taldi sér mögulegt að taka eða ráðstafa sjálf af þjóðartekjum fyrir fyrri heimsstyrjöld. Það er ekki lengri tími liðinn en það.

Hér finnst okkur eðlilegt að ganga svo langt í forsjárhyggjunni að mjög þröngar skorður eru því settar hvernig einstaklingarnir mega ráðstafa þeim fjármunum sem þeir þó eiga. Ég verð að segja, og ég hef kannski nokkra sérskoðun hvað það varðar, að mér finnst það eiginlega ekki ganga upp að einstaklingurinn geti ekki, þegar hann lendir í fjárhagslegum áföllum, gripið til þess þvingaða sparnaðar með einhverjum hætti sem þarna hefur safnast upp og hann er eigandi að.

Mér hefði fundist eðlilegra að þarna væri um mun rýmri heimildir að ræða fyrir einstaklingana. Bent hefur verið á að þarna gæti komið til erfiðleika ef fólk vildi útleysa sparnaðinn sinn í stórum stíl, þá þyrfti að selja eignir og ganga fram með hraði sem gæti gert það að verkum að eignasafn lífeyrissjóðanna mundi rýrna verulega. Það kann vel að vera. Eignasafn lífeyrissjóðanna á alltaf að vera þannig að það geti staðið undir eðlilegum greiðslum og að mínu viti á það að vera með þeim hætti að það geti svarað til þess að greiða út séreignarlífeyrissparnað þegar um það er að ræða.

Satt að segja fyndist mér eðlilegt að þegar um er að ræða viðbótarsparnað eins og séreignarlífeyrissparnaðinn, að hann sé tiltækur fyrir þá sem þess óska þegar þeir þurfa á að halda. Hér er um að ræða einstaklinga sem lenda nú í vandræðum vegna þess að þeir geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þeir lenda í vandræðum vegna þess að þeir hafa orðið fyrir tekjumissi. Það er það sem frumvarpið fjallar um og er hin raunverulega forsenda þess að taka einhvern hluta af séreignarsparnaðinum út, að fólk hafi orðið fyrir slíkum búsifjum. Þá er þeim heimilt með ákveðnum skilyrðum að taka út örlítinn hluta eða sem nemur allt að 100 þús. kr. á mánuði.

Fyrir þá sem hafa keypt sér fasteign nýlega og tekið lán, þess vegna verðtryggt lán að upphæð 10 millj. kr., hefur höfuðstóll lánsins á undanförnum mánuðum verið að hækka meira en sem nemur því sem verið er að leggja til að einstaklingurinn megi taka út og ráðstafa til þess að greiða upp í skuldir og vanskil. Það sýnir hvað við göngum í raun skammt til þess að leysa vanda ef hann er fyrir hendi. Og það er hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í ræðu fyrir nokkru, að spurningin sé um það hvort þetta frumvarp muni í raun leysa þann vanda sem stefnt er að að leysa. Ég get verið honum sammála hvað það varðar þó að ég vilji fara nokkuð aðra leið en hann að því leyti að það er grundvallaratriði í mínum huga að einstaklingar í frjálsu þjóðfélagi séu jafnan fjár síns ráðandi. Og þegar um er að ræða viðbót við þann þvingaða sparnað sem eru 12% af tekjum, sem er ærið, eigi þeir fjármunir jafnan að vera til frjálsrar ráðstöfunar.

Ég hefði í raun talið eðlilegt að við á þingi tækjum lífeyrissjóðakerfið og hinn þvingaða sparnað til umræðu einmitt í ljósi þess sem gerst hefur á undanförnum mánuðum þegar ljóst er að lífeyrissjóðirnir margir hverjir hafa tapað verulegum hluta af eignum sínum í því efnahagshruni sem orðið hefur. Það er alveg ljóst að sumir lífeyrissjóðir hafa fjárfest með þeim hætti að þeir gættu ekki hagsmuna sjóðfélaga sem skyldi. Alla vega hefði þurft að athuga það betur. Það fer eftir því í hvaða lífeyrissjóð einstaklingurinn hefur verið þvingaður til að greiða hversu stóran hluta hann fær af lífeyrissparnaði sínum.

Þar komum við að öðrum hlut sem skiptir líka miklu máli í þessu. Þegar ríkisvaldið setur lög sem skyldar borgarana til að greiða ákveðinn hluta af tekjum sínum sem eiga síðan að standa þeim til ráðstöfunar síðar tel ég það líka vera skyldu ríkisins að sjá um að þessi sparnaður sé tryggður og tiltækur þegar til á að taka. Að fela einhverjum aðilum úti í bæ að annast þetta og bera ábyrgð á því án þess að þeir hafi verulegt frelsi til að ráðstafa þeim hlutum að geðþótta — en þó innan ákveðinna marka, það eru ákveðnar reglur hvað það varðar — er að mínu viti ekki ásættanlegt. Það hefði verið eðlilegra, fyrst að ríkisvaldið er á annað borð að vasast í þessu, að það komi þá og gæti þess að þessir fjármunir séu tiltækir þannig að ekki sé um það að ræða að einstaklingarnir séu þvingaðir til þess að greiða verulegan hluta tekna sinna í sjóð. Og síðan þegar til á að taka hefur eignarhluti þeirra rýrnað verulega vegna þess að sjóðstjórnin gætti þess ekki að ávaxta pundið með eðlilegum hætti.

Inn í umræðuna um lífeyrissjóðina hafa blandast töluvert hugmyndir að það verði að vera verðtrygging á útlánum til þess að lífeyrissjóðirnir geti staðið undir þeim skuldbindingum til framtíðar. Við þyrftum því að búa til lánakerfi á Íslandi sem væri allt öðruvísi en í öllum okkar nágrannalöndum til þess að viðhalda því kerfi sem við höfum hvað þetta varðar. Það sjónarmið og þær röksemdir finnst mér vera gjörsamlega óásættanlegar. Það er gjörsamlega óásættanlegt að við getum ekki búið í eðlilegu samfélagi og haft eðlilegan þvingaðan sparnað eins og lífeyrissjóðakerfið án þess að það þurfi til að koma sérstakar ráðstafanir hvað þetta varðar.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þegar ríkisvaldið er á annað borð að vasast í því og gera kröfur um og leggja þær byrðar á borgarana að þeir skuli setja til hliðar verulegan hluta af vinnulaunum sínum í mánuði hverjum til þess að það standi þeim til ráðstöfunar í ellinni, ber ríkinu að hlutast til um að þessir (Forseti hringir.) fjármunir séu til reiðu þegar þar að kemur.