136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Magnússon hefur svolítið aðra nálgun en flestir þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa tekið til máls. Ég vil í upphafi taka undir orð hans um að það er vissulega gengið býsna langt í forræðishyggju á þessu sviði þegar við horfum bæði á hinn þvingaða skyldusparnað, almenna lífeyrissparnaðinn, og aðrar hömlur sem lagðar eru á séreignarsparnaðinn.

Ég vildi þó koma því sjónarmiði að að við ættum kannski að líta á lífeyrissjóðakerfið örlítið jákvæðari augum en hv. þm. Jón Magnússon gerir. Ég held að það verði ekkert úr því dregið að hið öfluga lífeyrissjóðakerfi hér á landi hefur skapað talsvert meira öryggi á þessu sviði en við þekkjum í nágrannalöndunum þar sem lífeyriskerfið er meira í formi gegnumstreymiskerfis og getur auðvitað stefnt í óefni þegar þeim sem er á eftirlaunum fjölgar og hinum vinnandi fækkar.

Okkar kerfi er betur undir það búið að mæta slíku. Það er því rétt sem fram hefur komið hjá ýmsum alþjóðastofnunum sem um þessi mál fjalla að við stöndum vel og það eru í raun forréttindi fyrir okkur að vera með sjóðsöfnunarkerfi eins og nú er. Þrátt fyrir að ég sé sammála hv. þm. Jóni Magnússyni um að það er mikil forræðishyggja í þessu vildi ég samt undirstrika að í heildina tel ég að lífeyriskerfið okkar sé býsna gott.

Hins vegar er það rétt sem hv. þm. Jón Magnússon segir að það þarf vissulega að skoða þætti eins og eftirlit með fjárfestingum (Forseti hringir.) sjóðanna til að tryggja það sem hann endaði ræðu sína á, (Forseti hringir.) að þeir fjármunir verði (Forseti hringir.) til staðar sem í sjóðunum eru þegar á þeim þarf að halda.