136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:11]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir það sem hann tjáði sig um og sagðist vera í öllum meginatriðum sammála mér hvað forræðishyggjuna varðar.

Ég er þeirrar skoðunar að einstaklingurinn geti almennt séð um að ráðstafa fjármunum sínum betur en ríki eða lífeyrissjóðir. Samt sem áður skal ég taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að við höfum býsna gott lífeyriskerfi. En það er vegna þess að stjórnvöld hafa hlutast til um það með þeim hætti svo og samtök atvinnurekenda og verkalýðsfélög.

En samt sem áður erum við komin að grundvallarspurningu: Hvað á að ganga langt hvað þetta varðar? Ég minnist þess að hafa séð sérstakar úttektir og kannanir. Gerð var víðtæk rannsókn á þessu í Bretlandi fyrir nokkrum árum þar sem niðurstaðan varð sú að ávöxtun gegnum þvingaðar sparnaðarleiðir voru miklu lakari en það sem einstaklingarnir almennt gátu valið sér annars staðar.

Ég tel að þungamiðjan sé spurningin um hvaða traust berum við til einstaklinganna, hvort þeir kunni sjálfir fótum sínum forráð. Eða teljum við að það sé eðlilegra að setja svona mikinn hluta undir forsjá einhverra annarra en einstaklinganna (Forseti hringir.) sjálfra? Mér finnst satt að segja að við séum komin (Forseti hringir.) út yfir öll eðlileg mörk í því efni.