136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:24]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar við spurningunni hvort ég vilji hafa kerfið opnara er: Já. Vil ég hafa það meira valkvætt? Svarið er: Já, að sjálfsögðu. Það sem skiptir máli í frjálsu þjóðfélagi er að tryggja sem best ákvörðunarrétt einstaklinganna. Það er höfuðatriðið og við ættum að vera sammála um að það sé aðalatriðið.

Þegar ég tala um þvingun geri ég mun á hvort ég geri eitthvað af fúsum og frjálsum vilja eða hvort einhver annar aðili lætur mig gera eitthvað, hvort sem það er ríkisvald eða sveitarfélag eða annað, það er að sjálfsögðu þvingun. Það getur út af fyrir sig verið ósköp (Gripið fram í.) ágætt og getur haft — já, það eru yfirleitt ánægjulegar þvinganir eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson þekkir. Það getur t.d. verið ágætismál sem verið er að þvinga mann til, eins og það með hvaða hætti menn flokka sorp og henda því svo ég tali um það. Það er samt sem áður ákvörðun sem ég verð að hlíta. Það getur því í sjálfu sér verið ágætt mál að gæta þess að um einhvern þvingaðan lágmarkssparnað sé að ræða. Spurningin er bara: Hvar komum við að mörkunum þar sem við förum yfir það sem eðlilegt er að taka af hverjum einstaklingi? Það sem ég er að tala um, þungamiðjan hjá mér er í fyrsta lagi það að við tökum orðið 12% af atvinnutekjum hvers einasta einstaklings og mér finnst það orðið ansi hátt í þvinguðum sparnaði. Síðan talaði ég um að þegar um slíkt er að ræða og ríkissjóður var að vasast í þessu væri það skylda ríkisins að tryggja að menn fengju peningana sína til baka, að gæta þess. Ég ítreka það að það sem mér finnst skipta máli er að einstaklingurinn eigi að hafa heimild innan kerfisins, innan lífeyriskerfisins, (Forseti hringir.) til að velja sér sjálfur sparnaðarleiðir eftir ákveðnum reglum undir eftirliti.