136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:27]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að ég þyrfti að fá sértíma til að gera ítarlega grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi lífeyrissjóði og lífeyrismál og með hvaða hætti ég tel að þeim væri best borgið. (BJJ: Viltu ekki biðja um … tíma, fara fram á það?) Ég get ekki farið fram á að forseti brjóti þingsköp, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Það sem mér finnst vera höfuðatriðið er að þegar erfiðleikar steðja að eins og nú séu fjármunir einstaklinganna til reiðu til að þeir þurfi ekki að lenda í vanskilum þrátt fyrir að þeir eigi eignir sem eigi að vera tiltækar. Í annan stað finnst mér mikilvægt í framtíðarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins að gefa einstaklingunum meira vald til að ráða eignum sínum sjálfir.

Ég hef þá trú á einstaklingunum að almennt (Forseti hringir.) geti þeir ráðstafað eignum sínum betur en (Forseti hringir.) einhverjir aðrir fyrir þá, hvort sem það er ríkisvald, sveitarfélög eða lífeyrissjóðir.