136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:44]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fjallaði í máli sínu um áhættudreifinguna sem þarf að vera til staðar í sjóðastýringu lífeyrissjóðakerfisins. Ég er hjartanlega sammála því sem fram kom að þetta skiptir afar miklu máli vegna þess að lífeyrissjóðirnir og ekki síður séreignarsparnaðurinn er auðvitað hagstæðasta sparnaðarform okkar.

Í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar kom fram að kjarni málsins er vissulega sá að við sjálfstæðismenn fögnum þeirri umræðu hvernig best sé að útfæra séreignarsparnaðarleiðir þannig að þær geti leyst brýnan vanda heimilanna. Vandinn, og ég tek þar undir með hv. þingmanni, við þessa umfjöllun er að í frumvarpinu er um að ræða útvatnaða útfærslu sem mun koma lífeyrissjóðunum illa. Ég er algjörlega sannfærð um það, þetta mun koma kerfinu illa, og í öðru lagi tekur þetta ekki á bráðavanda heimilanna.

Mig langar að fá hv. þingmann til að ræða það aðeins við mig hvort hann sé ekki sammála þessu og að hann skýri nánar frá afstöðu sinni til þess hvaða útfærsla það væri sem kæmi þá frekar til greina en þessar smáu upphæðir fyrir hvern og einn. Hver er t.d. afstaða þingmannsins — af því að ég held að það hafi ekki komið fram — til minnihlutaálitsins þar sem útfærslan er frekar í stóru myndinni á bráðavandann? Þá vitna ég í minnihlutaálit Péturs H. Blöndals.