136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk lánaðan bunka hjá formanni Vinstri grænna og þetta eru bara ræðurnar sem eru teknar undanfarna daga. Svo kemur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og segir að við séum með málþóf. Virðulegur forseti, þetta eru fleiri tré í finnskum skógi. (Gripið fram í.)

Hér kemur hv. þingmaður upp í fullri alvöru og segir að sjálfstæðismenn séu í málþófi. Virðulegur forseti, hversu margir þingmenn eru í Vinstri grænum? Þeir eru ekki margir en þeir hafa talað út í eitt í hverju einasta máli. Þá er það ekki málþóf, þá eiga þeir ekki að fara á Hverfisgötuna — eða hvar sem höfuðstöðvar Vinstri grænna eru — og tala þar sitt „rugl“, svo ég vitni beint í hv. þm. Árna Þór Sigurðsson. Nei, nei, nei. Virðulegur forseti, þá er það lýðræðisleg umræða, sjálfsagður réttur, og þeir héldu endalausar ræður þegar þingsköpum var breytt þannig að þeir gátu ekki talað út í hið óendanlega.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið afskaplega góð umræða um þetta mál þar sem bent hefur verið á augljósa galla og síðast þegar ég vissi, virðulegi forseti, þótti hv. þingmönnum Vinstri grænna sjálfsagt að fara yfir það í miklum smáatriðum, eins og þessi bunki og aðrir sambærilegir hjá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum Vinstri grænna sýna. En allt í einu er allt breytt og nú eigum við sjálfstæðismenn að ræða hluti í Valhöll en ekki í þingsal.