136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:07]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þetta er afar sérkennileg umræða um fundarstjórn forseta. Forseti hefur einmitt lagt áherslu á að hér verði haldin dagskrá og menn ræði þau mál sem á dagskrá eru. Við höfum farið mjög málefnalega yfir málið um séreignarsparnaðinn og alveg full nauðsyn á því vegna þess að þegar málið var hér til 2. umr. voru gefin ákveðin loforð um að það yrði athugað betur á milli 2. og. 3. umr. og tekið tillit til þeirra tillagna sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var með. Hvað kom í staðinn út úr nefndinni? Ekki var hægt að skoða málið og taka tillit til umsagna heldur var sagt: Heyrðu, það er best að fjármálaráðuneytið skoði þetta mál. Það er alveg magnað að þetta skuli vera vinnan í nefndinni.

Það er full ástæða til að vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) en ég hlýt jafnframt að spyrja og ítreka spurningar sem hér hafa komið fram: Ætlar forseti að halda hér lengi áfram störfum í nótt? (Gripið fram í: Við hvetjum til þess.)