136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:17]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst mótmæla því að þær umræður sem við höfum tekið þátt í um þetta mál hafi verið ómálefnalegar. Þær hafa verið mjög málefnalegar, þær hafa snúist um efni málsins. Þeir sem hafa gert þessar umræður ómálefnalegar eru hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Ég skil ekki hvað fyrir þeim vakir að koma hingað og gagnrýna okkur fyrir að ræða þetta mál þegar það er lagt þannig upp að því var frestað til 3. umr. að ræða breytingartillögu Péturs H. Blöndals. Um það hafa þessar umræður snúist. Hv. þingmenn hafa ekkert fylgst með því. Þegar framhaldsnefndarálit meiri hluta nefndarinnar er skoðað sést að það er hvorki fugl né fiskur. Það er fullkomin ástæða fyrir okkur að ræða þetta, fara ofan í þetta og velta fyrir okkur um hvað þetta mál snýst og við höfum gert það í dag. Og að sitja undir því hér að við höfum verið ómálefnalegir í málflutningi okkar er ósanngjarnt og algerlega órökstutt með öllu.