136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við fundarstjórn forseta, að sinni, skulum við segja, vegna þess að klukkan er ekki orðin margt og ég hef eytt mörgum nóttunum hér í þessu þinghúsi, aðallega þar sem ég hef stundað þá iðju að hlýða á andstæðinga mína í stjórnmálum, eins og hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, þá þingmann í stjórnarandstöðu, og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, þessa ágætu menn sem nú kvarta mjög sáran yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji fjalla um mikilvæg mál sem varða séreignarlífeyrissparnað landsmanna.

Það er dálítið merkilegt að fylgjast með hamskiptum þessara ágætu herramanna. (ÁÞS: En Sjálfstæðisflokksins?) Það er ekki langt síðan, ætli það séu ekki ein tvö ár síðan þessir menn héldu hér ræður svo klukkutímum skipti. Þeir lásu upp úr umsögnum sem borist höfðu til nefnda vegna þeirra mála sem til umfjöllunar voru hverju sinni. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þykist ekki kannast við það en það er samt sem áður þannig. Ég minnist þess þegar við eyddum hér mörgum nóttum svo vikum skipti í umræðum um t.d. vatnalög (ÁÞS: Ég var ekki …) eða um Ríkisútvarp. Ég verð að segja að við þessa umræðu sakna ég dálítið hæstv. heilbrigðisráðherra (Gripið fram í: Ég líka.) sem er líklega sá maður sem gengið hefur hvað lengst í þingsögunni, (Gripið fram í: Forsætisráðherra.) já, fyrir utan hæstv. forsætisráðherra, (Gripið fram í.) að halda hér langar ræður (Gripið fram í.) um lítið sem ekki neitt. Yfirleitt hafa þær ræður verið endurtekningar á áður fluttu efni.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur rukkað okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins eftir því hvers vegna við greiddum þessu frumvarpi atkvæði eftir 2. umr. Ég ætla að svara þeirri spurningu til að hv. þingmaður þurfi ekki að ómaka sig á því að spyrja mig hennar hér við umræðuna. Ástæðan fyrir því að við gerðum það, sjálfstæðismenn, var sú að fyrir þinginu lá mikilvæg breytingartillaga sem flutt var af hv. þm. Pétri H. Blöndal og vegna þess að um það var samið að málið og breytingartillaga þess hv. þingmanns færi til umræðu milli 2. og 3. umr. í efnahags- og skattanefnd greiddum við frumvarpinu og þeim breytingartillögum sem þá höfðu verið gerðar og voru til bóta á upphaflegu frumvarpi atkvæði okkar.

Það er hins vegar napurleg staðreynd, úr því að hv. þm. Grétar Mar Jónsson talaði um að við ættum að bera virðingu fyrir þinginu hér áðan í stuttri ræðu sinni, að efnismikil breytingartillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals fékk litla sem enga umræðu í nefndinni. Hún var afgreidd í umræðu á mjög stuttum tíma, miklu styttri tíma en eðlilegt hefði verið. Ég vil sérstaklega hnýta í þau orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem skensaði þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér við umræðuna áðan fyrir að hafa mætt illa í nefndina og að það minnihlutaálit, framhaldsnefndarálit, sem liggur fyrir í þessu máli og undirritað er af hv. þm. Pétri H. Blöndal sé til sönnunar þess að sjálfstæðismenn mæti illa á nefndarfundi í þinginu. Þá vil ég taka það fram að stjórnarliðar hér í þinginu hafa heldur betur gerst sekir um þann sama glæp. Ég sit nefnilega í hv. allsherjarnefnd hér á Alþingi og ég mæti nánast á hvern einasta fund þar. Þar eru mikilvægustu mál þingsins til umfjöllunar, (GMJ: Hvaða vitleysa er þetta.) eins og frumvarp um greiðsluaðlögun, hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Það er ekki furða að hv. þingmaðurinn hafi mikið vit á því hvað fer fram í allsherjarnefnd, hann á í fyrsta lagi ekki sæti í nefndinni og hefur þar af leiðandi greinilega ekki hugmynd um hvaða mál eru þar til umfjöllunar, en það eru t.d. frumvarp til laga um breytingu á nauðungarsölu og gjaldþrotaskiptalögum, það eru greiðsluaðlögunarmálin og fleiri stærstu málin sem varða greiðslubyrði heimilanna í landinu. Svo grípur hv. þm. Grétar Mar Jónsson fram í fyrir mér og ætlar að fara að leiðrétta mig án þess að hafa kynnt sér málin eða vita nokkurn skapaðan hlut um það hvað fer fram í nefndinni. Í þeirri nefnd mæta stjórnarliðar ákaflega illa, sinna störfum sínum ekki sem skyldi enda hvet ég hv. þm. Birki J. Jónsson til að fara yfir málaskrá allsherjarnefndar og fara yfir það hversu vel þeirri ágætu nefnd hefur gengið að afgreiða mál. Það hefur nefnilega hvorki gengið né rekið hjá hv. þingmönnum í meiri hluta. (Gripið fram í: Viltu ekki fara yfir það?) (Gripið fram í.)

Ég ætla nú ekki að fara yfir það að sinni en vildi taka þetta fram vegna þess sem kom fram hér í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar til þess að bera hönd fyrir höfuð félaganna. Ég kann ekki við það að um þá sé rætt með þessum hætti.

Ég kann heldur ekki við það að hv. þingmenn eins og Grétar Mar Jónsson komi hér upp í ræðustól Alþingis og haldi því fram að hér sé verið að setja eitthvert leikrit á svið og kalli eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn beri virðingu fyrir þinginu. Það er einmitt það sem við gerum, við berum virðingu fyrir Alþingi, það gerir stjórnarmeirihlutinn ekki. Besta dæmið um það er afgreiðsla meiri hlutans á þessu máli. Sannleikurinn er nefnilega sá að efnahags- og skattanefnd ákvað að kasta til höndunum við vinnslu þessa máls í stað þess að sinna þeirri rannsóknarskyldu sem henni ber að sinna þegar hún hefur fengið mál til meðferðar. Það gerði hún með því að ljúka ekki efnismeðferð málsins, heldur að fela fjármálaráðuneytinu að ljúka mikilvægum efnisatriðum þess, að fela framkvæmdarvaldinu að klára þá lagasetningu sem Alþingi ber að sinna og hv. þingmenn eiga að sinna í störfum sínum.

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum sagt, og lagt á það mikla áherslu, að við viljum leggja góðum málum ríkisstjórnarinnar lið. Þær yfirlýsingar standa. Hins vegar er það svo að í þessu máli hefur komið fram breytingartillaga og það hefur verið upplýst hér í umræðunum að ákvæði þessa frumvarps kunni að vera til þess fallin að skapa ákveðna hættu fyrir lífeyrissjóðakerfið í landinu eins og hv. þm. Guðfinna S. Bjarnadóttir hefur bent á og setið undir ámæli frá hæstv. utanríkisráðherra fyrir vikið að fullkominni ósekju. Þegar fram koma ábendingar um það að það mál, það frumvarp sem við erum að fjalla um hér, kunni að leiða til þess að lífeyriskerfið sé í hættu eða að hagsmunir þess kunni að vera fyrir borð bornir hljótum við þingmenn að sýna þá ábyrgð og þann þroska að fjalla efnislega um málið, ekki síst í ljósi þess að í október — hafi það farið fram hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni — hrundi efnahagskerfið. Efnahagslífið hrundi, bankarnir fóru á hliðina. Einhverjir mikilvægustu og stærstu hluthafar í bönkunum, Íslandsbanka, áður Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum, voru lífeyrissjóðirnir og lífeyrisþegar þessa lands. Í dag fór Straumur fjárfestingarbanki á hliðina og lífeyrissjóðirnir voru gríðarlega stórir hluthafar í þeim banka þannig að lífeyrissjóðirnir hafa í efnahagshruninu tekið á sig geysilega harðan skell vegna þeirra áfalla sem við höfum orðið fyrir.

Í ljósi þess ber okkur þingmönnum skylda til að fjalla nákvæmlega um það og fara yfir það hvort í þessu frumvarpi sem varðar lífeyrissjóðina felist einhverjar hættur.

Það stafar auðvitað hætta af þessu frumvarpi. Í séreignarsparnaði landsmanna eru um 250–300 milljarðar kr. Ef ég man rétt eru um 102 milljarðar í vörslu Kaupþings. Rætt hefur verið um að heimila fólki aðgang að séreignarsparnaði til að mæta greiðsluerfiðleikum. Við skoðun á þessu er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að lífeyrissparnaður er ekki laust fé. Ef miðað er við t.d. eignasamsetningu séreignarsparnaðar Kaupþings eru um 10,2% í innlánsleiðum og 10,2% til viðbótar í öðrum innlánum. Ef gert er ráð fyrir að þessi eignasamsetning endurspegli allan séreignarsparnað má gera ráð fyrir því að 50–60 milljarðar séu í lausu fé, en ekki er hægt að álykta að hægt sé að greiða það allt út því að þetta fé er fjárfest í mismunandi sjóðum og leiðum og ekki hægt að færa fé á milli mismunandi sjóða. Ég vek athygli hv. þm. Grétars Mars Jónssonar sérstaklega á þessum atriðum.

Núna er sveigjanleiki á verðbréfamörkuðum lítill sem enginn og því verulegum vandkvæðum bundið að selja fjárfestingarsjóðinn. Til þess að hægt sé að breyta lífeyrissparnaði í laust fé þarf einhver að kaupa fjárfestingar sem lífeyrissparnaðurinn hefur fjárfest í. Sá aðili verður líklega vandfundinn við þessar aðstæður, frú forseti. Lífeyrissjóðirnir hafa um 150 milljarða á ári í ráðstöfunarfé, þ.e. iðgjöld plús afborganir verðbréfa mínus útgreiðsla. Líklegt er að ríkissjóður muni gefa út mikið af ríkisskuldabréfum sem áætlanir eru um að m.a. lífeyrissjóðirnir fjárfesti í.

Bent hefur verið á að ef opnað verður á aðgang að séreignarsparnaði er hætta á að eignaverð lækki án þess að það takist að selja fjárfestingar séreignarsjóðanna. Það mundi leiða til þess að eignaverð mundi lækka enn frekar án þess að hægt væri að greiða sparnaðinn út.

Það er alveg skiljanlegt, frú forseti, að uppi séu hugmyndir um notkun séreignarsparnaðar og að hugmyndir í þá veru hafi vaknað. Í sumum tilfellum er lífeyris- og séreignarsparnaður verðmætasta eign einstaklinga, sérstaklega í ljósi þess að þær eignir eru ekki aðfararhæfar. Útgreiðsla séreignarsparnaðar sem byggir á sjóðasöfnun getur leitt til aukins þrýstings á almannatryggingakerfi framtíðarinnar. Ég vek athygli á því að ef reglum um aðgengi að viðbótarlífeyrissparnaði verður breytt þarf hugsanlega að gæta jafnræðis, og það þarf að gæta jafnræðis meðal sjóðfélaga, t.d. ef greiða ætti út 10% séreignarsparnaðar er líklegast að losaðar verði þær eignir sem hægt er að breyta í laust fé, einkum ríkisskuldabréf, og aðrir sjóðsfélagar sitja þá eftir með breytt eignasafn.

Mögulegar breytingar þurfa því að taka mið af seljanleika og jafnræði meðal sjóðfélaga. Áhöld eru uppi um það að slíkt sé gert í þessu frumvarpi. Ég tel að sú breytingartillaga sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur flutt hér sé mjög til bóta, ég tek það hins vegar fram svona að lokum að sú lausn sem þetta frumvarp, þrátt fyrir að það sé lagt fram af góðum huga og ég tek fram að hugsunin er að mörgu leyti ágæt, er sá galli á málinu að sú breyting sem við erum að tala um og sú lausn breytir sennilega litlu (Forseti hringir.) fyrir þann sem á í verulegum erfiðleikum. Það þarf, frú forseti, annað og meira að fylgja með þessu máli ef menn ætla sér að ná (Forseti hringir.) þeim markmiðum sem að er stefnt.