136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:44]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áður á þingferli mínum þurft að leiðrétta hv. þm. Grétar Mar Jónsson þegar hann segir að ég hafi ekki migið í saltan sjó eða dýft hendi í kalt vatn. Ég hef margoft dýft hendi í kalt vatn og ég ætla að ítreka það við hv. þm. Grétar Mar Jónsson að ég hef líka migið í saltan sjó. Eins og hann veit reri ég út frá Ólafsvík á Jóa á Nesi með ágætum kunningja hv. þingmanns, Friðólfi Mortensen Færeyingi. Það þýðir ekkert fyrir hann að koma hingað upp og halda því fram að ég hafi ekki migið í saltan sjó og geti þar af leiðandi ekki tjáð mig um séreignarlífeyrissparnað. Reyndar veit ég ekki hvað það kemur málinu við. Ég veit heldur ekki hvað það kemur málinu við að einhverjir þingmenn hér á Alþingi séu í prófkjörsbaráttu í sínum flokkum. Þeir þurfa þó a.m.k. að berjast fyrir sínum sætum, það er annað en svona forréttindaþingmenn eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson sem fær allt upp í hendurnar í sínum eigin flokki, þar á meðal leiðtogahlutverkið í Frjálslynda flokknum í Suðurkjördæmi.

Okkar umræða hér um séreignarlífeyrissparnað hefur ekkert með prófkjörsbaráttu okkar að gera. Ég tek þátt í prófkjöri og ég get upplýst hv. þingmann um það að ég hugsa að ég sé ekki að græða mörg atkvæði á því að standa hér í ræðustóli Alþingis klukkan að verða 11 að kvöldi, ég hugsa að ekki séu margir áhorfendur að þessari umræðu hér.

Ég gæti gert margt annað betra fyrir mína eigin hagsmuni en ég kýs að vinna frekar að málefnum lífeyrissjóðanna vegna þess að það eru mál sem skipta máli. Það er það sem við höfum bent hér á, það stafar hætta (Forseti hringir.) að lífeyrissjóðakerfinu og okkur þingmönnum ber skylda til að benda á þær hættur þegar (Forseti hringir.) málin eru til umfjöllunar. Það hefur ekkert með málþóf að gera og ekkert með prófkjör að gera og ekkert með sjómennsku að gera.