136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vakti einfaldlega athygli á þeirri staðreynd að þingmenn Frjálslynda flokksins tóku ekki undir með okkur sjálfstæðismönnum að forgangsraða í þágu atvinnulífsins, að forgangsraða dagskrá þingsins í þágu efnahagslífsins og þar á meðal Helguvíkur.

Talandi um að vera viss um afstöðu þingmannsins. Það er alveg rétt, við vitum hve jákvæð afstaða hv. þingmanns er í málefnum Helguvíkur, en við vitum líka að við þurfum tíma til að koma því máli í gegnum þingið. Og af hverju? (Gripið fram í.) Af því að annar stjórnarflokkurinn er á móti því. Við þurfum að hjálpa ríkisstjórninni með það mál í gegnum þingið og það tekur það tíma vegna þess að annar stjórnarflokkanna er á móti því. Við þurfum að hjálpa ríkisstjórninni hvað það mál varðar. Þess vegna vekur þetta eftirtekt mína.

Þetta er svolítið sérstakt. Á föstudaginn afgreiddum við mjög gott mál, sem er endurgreiðsla á virðisaukaskatti. Þá var eftirtektarvert að einungis einn þingmaður frá Framsókn var við atkvæðagreiðsluna. Þá var líka eftirtektarvert að við þurftum að fresta atkvæðagreiðslunni. Við þurftum að seinka atkvæðagreiðslunni, frú forseti, ekki af því að sjálfstæðismenn væru að tefja málið, ekki af því að sjálfstæðismenn vantaði í salinn, heldur vantaði þingmenn stjórnarinnar, (Gripið fram í: Þeir eru svo fáir.) vinstri græna og samfylkingarmenn, og þessi eini framsóknarmaður beið í salnum. Við studdum það mál, við sjálfstæðismenn við komum því mikilvæga máli út úr þinginu. Það er dæmi um það að við komum góðum málum í gegn, en við áskiljum okkur rétt til að ræða málin og við viljum fá atvinnumálin fremst á dagskrá.