136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er dálítið merkilegt að hlusta á hv. þm. Grétar Mar Jónsson fjalla hér um frumvarp til laga um séreignarlífeyrissparnað. Kemur upp í ræðustólinn, háheilagur maðurinn, og skammar okkur sjálfstæðismenn fyrir að standa fyrir málþófi og fjallar svo bara um sjávarútvegsmál í umræðu um frumvarp sem varðar séreignarlífeyrissparnað. (Gripið fram í: Og skuldir heimilanna.) Og skuldir heimilanna. (Gripið fram í.) Fjallar hér um mannréttindanefndarálit Sameinuðu þjóðanna út af kvótakerfinu.

Ég held að hv. þingmaður, af því hann er nú leiðtogi síns flokks í Suðurkjördæmi þar sem búa margir lífeyrisþegar og margir eiga séreignarlífeyrissparnað, ætti að einbeita sér að því að fjalla um efni málsins og fjalla um lífeyriskerfið og áhrif þessa frumvarps á það. Í ljósi þess langar mig að spyrja hv. þingmann af því að það kemur fram í framhaldsnefndaráliti hv. þm. Péturs H. Blöndals að sú milljón sem við erum að tala hér um dreifist samkvæmt frumvarpinu á tíu mánuði og nemur þá 63 þús. kr. á mánuði eftir skatt á hvern og einn, og eins og bent er á í framhaldsnefndarálitinu skiptir þessi lausn sennilega tiltölulega litlu máli fyrir þá sem eru í erfiðleikum. Nú vil ég fá að heyra viðhorf hv. þm. Grétars Mars Jónssonar til þess sem hér hefur komið fram. Telur hv. þingmaður að sá bjarghringur sem hér er verið að kasta út til heimilanna í landinu sé þess eðlis og til þess fallinn (Forseti hringir.) að draga menn að landi sem komnir eru í fjárhagslega erfiðleika eða telur hann að (Forseti hringir.) grípa þurfi til einhverra annarra aðgerða?