136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:21]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að hæstv. forseti ræður ekki lengd umræðna en hann ræður því hvenær umræður fara fram. Þó að hv. þingmenn hafi sett sig á mælendaskrá og vilji ræða málið ítarlega þýðir það ekki að fundurinn þurfi endilega að standa fram á nótt, eins og hæstv. forseti virðist leggja upp með.

Við vitum það öll sem hér erum að það eru nefndafundir snemma í fyrramálið og þeir sem á þá mæta þurfa að sinna öðrum skyldum áður en þeir komast til þeirra. (Gripið fram í.) Eins og bent var á hér áðan er hæstv. forseti fyrrverandi skólastjóri og eitt af þeim verkum sem þeir sem eru með börn á skólaaldri þurfa að sinna áður en þeir geta farið til starfa sinna í þingnefndum er að koma börnunum í skólann og betra er að vera kominn heim og vera sæmilega vel sofinn til að geta sinnt þeim verkum.

Það er því alls ekki svo, (Forseti hringir.) þó að það sé rétt að hv. þingmenn ráði lengd umræðna, að (Forseti hringir.) þeir óski eftir því að fundað verði fram á nótt. Forsetinn (Forseti hringir.) getur ráðið úrslitum um það. (Gripið fram í.)