136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil rifja upp að í tíð síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar voru haldnir hér næturfundir þegar brýn mál voru. Við afgreiddum m.a. haftalög í skjóli nætur. (Gripið fram í: Í samkomulagi.) Í samkomulagi, segir hv. þingmaður. Það var sko ekki samkomulag í nefndinni. Við vildum fá meiri tíma á vettvangi nefndarinnar til að fara yfir þau mál og því var neitað þannig að ekkert samkomulag var um það. (Gripið fram í.)

Í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru margir næturfundir haldnir og þar komu menn upp eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sögðust ekki kveinka sér undan næturfundum þannig að menn mega ekki snúa hlutunum alveg gjörsamlega á hvolf þó að þeir séu komnir í stjórnarandstöðu og ástandið í samfélaginu sé ekki eðlilegt. Ég legg til að við klárum þetta mál og helst að við hefjum umræður um breytingar á stjórnarskránni, stjórnarskipunarlögunum, (Gripið fram í.) af því að við þurfum að vinna hratt og örugglega. Í (Forseti hringir.) fyllsta bróðerni hvet ég sjálfstæðismenn hér á þingi til að láta af því að (Forseti hringir.) ræða þetta mál svo mikið sem þeir hafa gert hér í kvöld, ég held að það sé (Forseti hringir.) útrætt þannig að ég hvet sjálfstæðismenn hér á þingi að hleypa öðrum málum að.